Landsnet mælir með orkupakkanum

Landsnet mæir með innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins.
Landsnet mæir með innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Ljósmynd/Landsnet

Landsnet mælir með innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins í íslensk lög í umsögn sinni við þingsályktunartillögu þess efnis. Er komist að þeirri niðurstöðu á grundvelli faglegs mats á hagsmunum fyrirtækisins að því er segir í umsögn fyrirtækisins.

„Út frá hagsmunum Landsnets skiptir miklu máli að það lagaumhverfi sem félagið starfar í endurspegli sem best evrópskt regluverk að teknu tilliti til sérstakra aðstæðna á íslandi. Með vísan til þessa sem og ályktunar aðalfundar Samorku […] er það fagleg niðurstaða Landsnets að mæla með því að þingsályktunartillagan verði samþykkt.“

Reglur í takt við breytingar

Þá kemur í umsögninni fram að á undanförnum árum hafi „orðið miklar breytingar á ytra umhverfi Landsnets og gera verður ráð fyrir að frekari breytingar muni eiga sér stað á næstu árum, m.a. vegna orkuskipta og breytinga í viðskiptaumhverfi.“ Jafnframt „hafa orðið talverðar breytingar með innkomu nýrra sölufyrirtækja/raforkumiðlara á raforkusölumarkaði.“

Á grundvelli þessa telur Landsnet mikilvægt að reglur er varða orkumál verði þannig gerðar að auðvelda orkufyrirtækjum að takast á við breytt umhverfi. „Rekstur flutningsfyrirtækis í alþjóðlega þekktu lagaumhverfi skapar margvíslegt hagræði í starfsemi Landsnets.“

Mikilvægi samstarfs

„Sem flutningskerfisstjóri hefur Landsnet frá upphafi verið aðili að Evrópuneti raforkuflutningskerfisstjóra (ENTSO-E). Þótt stór hluti starfsemi ENTSO-E varði ýmsa þætti er lúta að samtengingum milli landa og rekstri samtengdra flutningskerfa og snerti þannig ekki beint núverandi starfsemi Landsnets, þá hefur þátttaka í starfsemi ENTSO-E haft töluverða þýðingu,“ segir í umsögninni.

Bendir Landsnet á að með aðildinni að ENTSO-E hafi meðal annars tekist að fá undanþágu frá „gildissviði sameiginlegra kerfisreglna (Network Codes) sem settar hafa verið samkvæmt heimild í reglugerð nr. 714/2009. Með þessu skapast svigrúm til að aðlaga kerfisreglurnar að sérstöðu einangraðra flutningskerfa og jafnframt nýta þá gríðarlegu þekkingu sem gerð Evrópureglanna felur í sér.“

Ekki kemur fram í umsögninni hvort höfnun þriðja orkupakkans hafi áhrif á aðild Landsnets að ENTSO-E.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert