Ótrúlegur kraftur einkennir baráttuna

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra á ársfundi Umhverfisstofnunar.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra á ársfundi Umhverfisstofnunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, fór yfir framtíðarsýn og sagði að mannkynið stæði frammi fyrir miklum áskorunum í umhverfismálum. Það væri verkefni okkar allra að takast í sameiningu á við þær áskoranir af ákveðni og festu.

Þetta kom fram í ávarpi Guðmundar á ársfundi Umhverfisstofnunar.

Guðmundur stiklaði fyrst á stóru hvernig staðan gæti orðið árin 2020, 2025, 2030 og 2040. „Ísland sjálft hefur náð þeim áfanga að verða kolefnishlutlaust. Það sem meira er, við bindum meira kolefni heldur en við losum og hjálpum þannig til við að ná umframmagni þess úr andrúmslofti,“ sagði Guðmundur þegar hann lýsti árinu 2040.

Hann sagði að það væri mikilvægt að horfa til framtíðar og hugsa um hvert við viljum og þurfum stefna. „Sýnin þarf að vera skýr.“

Framtíðarsýn ekki bara fögur orð á blaði

Guðmundur sagði að heimsbyggðin væri að vakna til meðvitundar um umhverfismál og ótrúlegur krafti einkenndi baráttuna. „Það er einstaklega ánægjulegt að sjá öll þau fjölmörgu verkefni sem komin eru í gang í umhverfismálunum hér á landi og farin að skila árangri,“ sagði ráðherra.

Framtíðarsýn má ekki bara vera fögur orð á blaði, í orði en ekki á borði. Þess vegna er lykilatriði að vinna markvisst að skammtíma- og langtímamarkmiðum okkar. Viðfangsefnin eru mismunandi og verkfærin því að sama skapi. Lagasetning, reglugerðir, stefnumörkun, nýsköpun, frumkvæði, aukið fjármagn, samningagerð, eftirlit og svo framvegis eru allt verkfæri,“ sagði Guðmundur.

Hann benti á að í fjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar væru stórauknar fjárheimildir til loftslagsmála, náttúruverndarmála og nú síðast hringrásarhagkerfisins. 

Átak gegn notkun einnota plasts vel heppnað

Hann fór einnig yfir mikilvægi Umhverfisstofnunar og sagði hana sinna mikilvægu starfi þegar kæmi að neytendamálum, bæði á sviði efnamála og varðandi neyslu, sóun og úrgangsmál. „Nýlega ýtti Umhverfisstofnun úr vör nýju átaki gegn notkun einnota plasts sem er einmitt ein af aðgerðum í tillögum starfshóps vegna plastmengunar sem skilaði af sér í lok síðasta árs. Mér finnst þetta átak einkar vel heppnað og flott. Stofnunin vinnur einnig að stefnu í úrgangsmálum sem ég stefni á að gefa út í haust,“ sagði Guðmundur.

Til að ná metnaðarfullri framtíðarsýninni sagði Guðmundur að það þyrfti öflugt og samhent lið ráðuneytis og stofnana eins og Umhverfisstofnunar. „Það þarf líka gott samtal og samráð stjórnvalda við hagaðila, almannasamtök, atvinnulíf og svo framvegis – enda mikilvægt að ná góðri sátt um svo stór mál. Ég hef lagt mikla áherslu á þetta samtal og þýðingu þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert