Vilhjálmur hættir í Landsrétti

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson dómari við Landsrétti mun hætta sem dómari …
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson dómari við Landsrétti mun hætta sem dómari nú í haust sökum aldurs. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson Landsréttardómari hefur sagt starfi sínu lausu frá og með 1. september og hefur dómsmálaráðuneytið auglýst stöðu hans lausa til umsóknar. Hættir Vilhjálmur vegna aldurs, en hann verður 69 ára í ár. Þetta staðfestir Björn L. Bergsson, skrifstofustjóri Landsréttar, við mbl.is, en Rúv sagði fyrst frá málinu.

Vilhjálmur var einn 15 dómara sem skipaður var við dóminn árið 2017, en dómstóllinn hóf störf í byrjun árs 2018. Vilhjálmur var fjórði í mati hæfnisnefndar sem mat hæfi umsækjenda um embættin. Dómsmálaráðherra gerði breytingu á matinu við skipun dómara og valdi þrjá sem hæfnisnefndin hafði sett neðar á lista.

Vilhjálmur mun hætta sem dómari við Landsrétt frá og með …
Vilhjálmur mun hætta sem dómari við Landsrétt frá og með 1. september. mbl.is/Hallur Már

Sonur Vilhjálms og nafni hans, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður, höfðaði mál þar sem hann taldi að seta Arnfríðar Einarsdóttur, einnar þeirra sem ráðherra hafði talið hæfari en hæfnisnefndin, væri brot á lögum mannréttindasáttmálans. Í mars komst svo Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi gerst brotlegt við skipunina, þótt dómurinn hafi verið klofinn í málinu. Ákvað íslenska ríkið í kjölfarið að áfrýja málinu til yfirdeildar dómstólsins.

Sem fyrr segir ætlar Vilhjálmur Landsréttardómari að setjast í helgan stein, en hann var áður hæstaréttarlögmaður og eigandi lögmannsstofunnar Landslaga.

Vilhjálmur lauk lögfræðiprófi við Háskóla Íslands árið 1976 og stundaði framhaldsnám í Noregi. Hann starfaði nær óslitið við lögmannsstörf þangað til hann var skipaður dómari við Landsrétt.

Dómsmálaráðuneytið auglýsir starfið og sækja umsækjendur um til ráðuneytisins. Björn segir að sama ferli sé á skipun dómara og áður hafi verið, bæði við Landsrétt þegar dómararnir 15 voru skipaðir og nokkrir héraðsdómarar síðan þá. Hæfnisnefnd mun fara yfir umsóknirnar og meta hæfi umsækjenda áður en þeir eru svo skipaðir af ráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert