Landsmenn eru þegar farnir að bóka aðventuferðir fyrir næstu jól og áramót og hófust bókanir hjá nokkrum ferðaskrifstofum í apríl.
„Það er dásamlegt að koma til Berlínar þegar jólaljósin ljóma og borgin skartar sínum fegurstu jólaskreytingum,“ segir í nýbirtri auglýsingu um aðventuferð hjá ferðaskrifstofunni Úrval-Útsýn.
Bókanir í aðventuferðir hefjast almennt hjá ferðaskrifstofum í apríl og jafnvel í mars en eldra fólk og stærri fjölskyldur bóka ferðir almennt í fyrra fallinu. Ferðir til áfangastaða á borð við Berlín, Helsinki, Búdapest, Brussel og Vínarborg eru komnar í sölu hjá ferðaskrifstofum landsins en Elísabet Hagalín, eigandi ferðaskrifstofunnar Tripical, segir í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag, að landsmenn hugi fyrr að aðventu- og vetrarferðum nú en áður fyrr.