Unnið var að því að steypa grunn nýja Icelandair-hótelsins við Thorvaldsensstræti og Kirkjustræti þegar tíðindamaður Morgunblaðsins var á ferð í miðbænum í gærdag.
Verður hótelið starfrækt undir merkjum Curio by Hilton. Að sögn Samúels Guðmundssonar, verkefnisstjóra framkvæmdanna, er stefnt að því að hæðirnar verði steyptar hver af annarri á næstu mánuðum. Jafnframt er unnið að framkvæmdum innandyra í gamla Landssímahúsinu sem verður hluti af nýja hótelinu.
Við það er miðað að verkinu verði að fullu lokið í árslok 2020 og þá verði hægt að hefja rekstur hótelsins. Samtímis er unnið að öðrum framkvæmdum á Landssímareitnum, m.a. endurgerð Nasa-salarins.
Framkvæmdirnar hafa sem kunnugt er verið mjög umdeildar þar sem undir steypuplötunni var fyrr á tíð hluti hins forna Víkurkirkjugarðs. Allar jarðneskar leifar í garðinum hafa hins vegar verið fjarlægðar, síðast við fornleifauppgröft árið 2016.