Alþjóðlegt tveggja daga þýðendaþing Miðstöðvar íslenskra bókmennta fór fram í Veröld, húsi Vigdísar nýverið en þar komu saman 18 þýðendur frá 10 málsvæðum. Tungumálin sem þau þýða á eru pólska, tékkneska, norska, sænska, danska, enska, rússneska, lettneska, þýska og ítalska. Um helmingur þátttakenda er búsettur hér á landi og helmingur kemur að utan. Þýðendaþingið fór fram á íslensku.
Á þinginu gafst þýðendunum tækifæri til að hitta starfssystkini frá ýmsum heimshornum, íslenska höfunda, fræðimenn, útgefendur og ýmsa aðra sem láta sig íslenskar bókmenntir varða, auk þess að hlusta á erindi og taka þátt í umræðum um bókmenntir og þýðingar.
Markmið með þýðendaþinginu er meðal annars að efla og treysta tengslin við starfandi þýðendur á erlend tungumál, að því er fram kemur í tilkynningu frá Miðstöð íslenskra bókmennta.
Í vinnustofunum sem Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, rithöfundur og þýðandi leiddi, spreyttu þýðendurnir sig á stuttum textum og fjörugar umræður spunnust um vafaatriði og vandamál sem komu upp. Steinunn Sigurðardóttir flutti erindið Á þýðing að vera skiljanleg? en hún er í miklum tengslum við þýðendur sinna bóka.
Rúnar Helgi Vignisson, rithöfundur og þýðandi, fjallaði um mikilvægi þess að þýða úr frummáli og Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur hélt erindi um íslenskar samtímabókmenntir.