„Það má ekki blóta í „network-þáttum“, blóð má helst ekki sjást og alls ekki nekt. Það má varla sjást í axlir. Þetta setur manni auðvitað skorður en á móti kemur að áskorunin við að koma efninu frá sér var líklega meiri en ella.“
Þetta segir G. Magni Ágústsson, ÍKS, sem stýrði kvikmyndatökunni á dramaþáttunum A Million Little Things en upptökur fóru fram í Vancouver. Þættirnir voru sýndir hér heima í vetur í Sjónvarpi Símans.
A Million Little Things er sýnt á ABC-sjónvarpsstöðinni í Bandaríkjunum og Magni bendir á, að þar eins og hjá hinum stóru sjónvarpsstöðvunum sé áherslan ósjaldan á léttara efni, eða „happy go lucky“-efni, eins og hann kallar það. A Million Little Things er á hinn bóginn drama sem tekur á sjálfsvígi, alkóhólisma, krabbameini og þunglyndi, svo fátt eitt sé nefnt.
„Það er því stórt skref að takast á við svona erfiða hluti og því er ekki að neita að það kom smá bakslag eftir fyrsta þáttinn, þar sem sjálfsmorðið á sér stað. Ekki voru allir á eitt sáttir á samfélagsmiðlum en við því var svo sem alveg að búast þegar um svona viðkvæmt mál er að ræða.“
Hann segir stemninguna á tökustað hafa verið mjög góða; „crew-ið“ hafi staðið saman af úrvalsfólki og leikararnir upp til hópa viðkunnanlegasta fólk. „Þessi hópur verður alltaf svolítil fjölskylda, ekki síst þegar við erum svona lengi saman. Ég held að ég hafi komið mér vel við flesta þarna, 7-9-13,“ segir hann og hlær.
„Annars skiptir alltaf mestu máli að skila frá sér góðu efni. Einu sinni vann ég með leikara sem var mjög kuldalegur við mig þangað til hann hafði séð útkomuna úr tökunum; þá mýktist hann allur upp. Annars borgar sig ekkert að pæla of mikið í stærð og nöfnum leikaranna sem maður er að vinna með. Þetta er bara fólk eins og við.“
Nánar er rætt við Magna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.