Björgvin Karl Guðmundsson fór með sigur af hólmi á Reykjavík Crossfit-mótinu í karlaflokki. Í kvennaflokki sigraði hin norska Jacqueline Dahlstrøm en Þuríður Erla Helgadóttir varð fjórða.
Reykjavík Crossfit-mótinu lauk í dag eftir harða keppni sem hófst með Esjuhlaupi á föstudag, en íslenskur sigur vannst í karlaflokki.
Björgvin Karl Guðmundsson sigraði í karlaflokki sem veitir keppnisrétt á heimsleikum Crossfit, en hann hefur þegar hlotið þátttökurétt. Annar varð Hinrik Ingi Óskarsson og hefur hann þar með unnið sér inn þátttökurétt á heimsleikum Crossfit. Í þriðja sæti var hinn bandaríski Will Moorad.
Norðmaðurinn Jacqueline Dahlstrøm sigraði í kvennaflokki en athygli vakti að þrír efstu keppendurnir í kvennaflokki hafa þegar unnið sér inn þátttöku á heimsleikum crossfit.
Önnur varð hin bandaríska Haley Adams sem leiddi mótið eftir tvo keppnisdaga, en hún er aðeins 18 ára gömul og nýkomin upp úr unglingaflokki. Þriðja varð hin gríska Anna Fragkou. Þá stóð Þuríður Erla Helgadóttir sig vel á mótinu og landaði fjórða sæti.