Útgjaldaauki sveitarfélaganna, sem leiða má af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninganna, nemur um tólf milljörðum króna á samningstímanum. Þessu til viðbótar koma áhrif á launakostnað hjá sveitarfélögunum, sem verða meiri en hjá ríkinu, og nema um fjórum milljörðum króna. Þetta kemur fram í ítarlegri umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um fjármálaáætlun 2020-2024.
Sambandið bendir m.a. á að skattar ríkissjóðs af tekjum og útgjöldum muni hækka meira en launakostnaður vegna kjarasamninga, en þessu verði öfugt farið hjá sveitarfélögunum. Laun séu lægri hjá sveitarfélögum en ríkinu og kjarasamningar með krónutöluhækkunum verði dýrari fyrir sveitarfélögin en ríkið.
Sveitarfélögin segjast ekki geta unað við þau áform ríkisins að framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði óbreytt að krónutölu árin 2019, 2020 og 2021. Það valdi sveitarfélögunum tekjutapi upp á 3,3 milljarða yfir tveggja ára skeið. Sveitarfélögin krefjast þess að Alþingi dragi þessi áform til baka.
„Það veldur okkur áhyggjum ef ríkið dregur ekki til baka áform um að frysta framlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga,“ sagði Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga í samtali við Morgunblaðið. „Við það skerðast tekjur sveitarfélaga og sérstaklega þeirra sem síst mega við því.“