Vafi leikur á því hvort þriðji orkupakkinn samræmist stjórnarskrá vegna valdframsals til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Sú leið sem valin hefur verið af utanríkisráðherra varðandi innleiðingu pakkans er hins vegar ætlað að útiloka stjórnskipunarvandann að svo stöddu.
Þetta sögðu þeir Friðrik Árni Friðriksson Hirst landsréttarlögmaður og Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, þegar þeir komu fyrir fund utanríkismálanefndar í morgun. Þar gerðu þeir grein fyrir álitsgerð sinni um þriðja orkupakkann sem þeir unnu að beiðni utanríkisráðuneytisins.
Stefán sagði á fundinum að stjórnarskrá Íslands gæfi lítið svigrúm og að sumt í þessum orkupakka væri þess eðlis að það gæti valdið töluverðum áhyggjum, hvort komið sé fram yfir brúnina á stjórnarskránni.
„Við fullyrðum ekki að ákvæði [þriðja orkupakkans] brjóti í bága við stjórnarskrá, en segjum að það sé verulegur vafi á því. Okkar umsögn er neikvæð í þeim skilningi,“ sagði Stefán.
Eins og málið sé lagt fram núna öðlist hins vegar ekki öll ákvæði gildi nema með lögum seinna meir. Löggjöf sem ekki er í gildi getur ekki brotið stjórnarskrá, en óvissan sé um það hvernig eftirleikurinn verður. Hvernig viðbrögð Evrópusambandsins verði þegar þar að kemur. Það sé bæði lagaleg og pólitísk spurning.
Friðrik fór yfir þær tvær mögulegu leiðir sem hægt væri að fara varðandi það hvernig Alþingi ætti að afgreiða málið. Sú leið sem utanríkisráðherra hyggst fara snýst um að samþykkja ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um þriðja orkupakkann, en með vissum fyrirvörum. Meðal annars að Alþingi áskilji sér rétt til þess að fresta því hvenær ákveðnum ákvæðum verði veitt fullt lagagildi, meðal annars um lagningu sæstrengs. Í álitsgerðinni bentu þeir á að þessi leið sé ekki með öllu gallalaus.
Hin lögfræðilega rétta leið væri að hafna innleiðingunni á þeim forsendum að óvíst sé hvort íslenska stjórnarskráin heimili umrætt valdframsal sem orkupakkinn boði. Slík synjun myndi hafa í för með sér að málinu yrði vísað aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar til nýrrar meðferðar.
Stefán benti á að hin lögfræðilega leið væri að vísa málinu aftur til EES-nefndarinnar og sé sú leið sem EES-samningurinn geri ráð fyrir að sé farin. Best væri að berjast á þeim vígvelli eins og Stefán orðaði það, en ekki sé hins vegar loku fyrir það skotið að Evrópusambandið myndi grípa til gagnaðgerða.
Varðandi hvort íslenskum stjórnvöldum beri skylda til þess að tengjast sameiginlegu raforkukerfi ESB með sæstreng með innleiðingu orkupakkans, segir í þingsályktunartillögu að slíkt ákvæði tæki ekki gildi nema stjórnarskráin verði skoðuð. Þeir voru spurðir hvort stjórnvöld gætu verið að skapa grundvöll fyrir málsókn með þeim rökum að verið væri að hindra raforkuflutning milli landa.
Friðrik sagði að undir einhverjum kringumstæðum gæti slíkt talist samningsbrot, en velti á Evrópurétti. Hins vegar sé það ekki bundið við þriðja orkupakkann hvort íslensk stjórnvöld geti fengið yfir sig málsókn eða ekki. Það gæti gerst á hvaða tímapunkti sem er að við yrðum talin hindra flæði orku.
Ómögulegt væri að gefa lagalegan rökstuðning fyrir því hvernig viðbrögð hagsmunaaðila myndu verða, sem gætu höfðað skaðabótamál fyrir íslenskum dómstólum gagnvart íslenska ríkinu vegna hindrunar á raforkuflutningi. Ekki væri hægt að útiloka slíkt.
Þá séu engin ákvæði í EES-samningnum sem gefa íslenskum stjórnvöldum fyrirvara um að innleiða ákveðin atriði samningsins, eins og ríki ESB hafa. Það myndi þarfnast yfirlegu að semja lagalegan fyrirfara um ákvæði þriðja orkupakkans.
Það að senda málið aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar gæfi tækifæri til þess að fara fram á lögformlega fyrirvara eða undanþágur.
Uppfært: Í inngangi fréttarinnar stóð áður að vafi leiki á um að sú leið sem stjórnvöld hafa boðað að verði farin varðandi innleiðingu þriðja orkupakkans samræmist stjórnarskrá. Rétt er að vafi leikur á hvort orkupakkinn samræmist stjórnarskrá, en sú leið sem farin er á að koma í veg fyrir stjórnskipunarvanda.