„Ríkið er að framleiða öryrkja“

Guðmundur Ingi Kristinson, þingmaður Flokks fólksins.
Guðmundur Ingi Kristinson, þingmaður Flokks fólksins. mbl.is/Hari

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, beindi fyrirspurn um biðlista eftir liðskiptaaðgerðum og verkjalyfjanotkun til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.

„Að vera á biðlista í heilt ár og gleypa þúsundir verkjataflna er grafalvarlegt mál – og þá er verið að búa til lyfjafíkla,“ sagði Guðmundur Ingi og sagðist þekkja það af eigin reynslu.

„Það er skelfilegt, þegar maður er kominn í tuttugu töflur í dag og kominn á töflur við aukaverkunum af töflum. Þá er eitthvað að kerfi, sem gerir svona hluti,“ sagði Guðmundur Ingi og bætti við: „Ríkið er að framleiða lyfjafíkla. Ríkið er að framleiða öryrkja.“

Guðmundur Ingi sagði að það væri grafalvarlegt mál að fullvinnandi fólk þyrfti að bíða lengi eftir aðgerðum á borð við liðskiptaaðgerðir og spurði ráðherra að því hvort fylgst væri með því hvernig lyfjagjöf væri háttað til þeirra sem væru á biðlista.

„Er einhver forgangsröðun? Er verið að fylgjast með því hverjir eru í bráðri þörf fyrir að gera eitthvað í málunum? Svo er það hitt, hversu margir missa og detta út af vinnumarkaði vegna þess að þeir fá ekki þær aðgerðir sem þarf tímanlega?“ spurði þingmaðurinn.

35% komast í mjaðmaaðgerð innan 90 daga

Í svari Svandísar kom fram að undanfarin þrjú ár hefði verið sérstakt biðlistaátak í gangi, sem lokið hefði um áramót. Hún hefur óskað eftir því við Embætti landlæknis að gerð verði úttekt til þess að greina hver árangurinn var af átakinu.

„Það er þó þannig að það hefur náðst verulegur árangur bæði að því er varðar mjaðmja skipti og hnéskipti og það var þannig fyrir átakið að það var verið að gera 480 mjam en á lokaári átaksins var þessi tala komin upp í 750 aðgerðir. Hvað varðar hnéskipti vorum við tala um 300 ríflega á ári en síðan upp í 700 ríflega á ári. Þannig að árangurinn er umtalsverður,“ sagði Svandís.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert

Stjórnvöld hafa sett sér það markmið að fólk þurfi ekki að bíða lengur en 90 daga eftir aðgerðum sem þessum og sagði Svandís að áður en að markmiðið fór af stað hefðu einungis 20% komist í mjaðmaaðgerð innan þessa tímaramma, en nú væri það komið upp í 35%.

„Hvað varðar hné voru það 12% en eru núna 30%, þannig að það er að nást verulegur árangur,“ sagði Svandís, en bætti því við að það væri áhyggjuefni hversu mikið nýgengið væri á biðlistana.

Vinnufærni og verkir á meðal matsþátta

Guðmundur Ingi steig að því búnu öðru sinni í pontu og sagði ráðherra ekki hafa svarað því hvort verið væri að forgangsraða á biðlistunum með tilliti til lyfjanotkunar og atvinnuþátttöku. Ítrekaði hann spurninguna.

„Það eru auðvitað notaðar tilteknar aðferðar við að greina það hverjir eru í mestri þörf og hverjir geta frekar beðið og eitt af því sem horft er til er vinnufærni, auðvitað, og að fólk geti sinnt sínu daglega lífi, og verkir skipta auðvitað miklu máli þarna,“ sagði Svandís í svari sínu og sagði sannarlega verið að fylgjast með því og að það verði meðal þess sem tekið verði til í útttekt Embættis landlæknis á biðlistaátakinu.

Svandís sagðist búast við því að fá úttektina frá Embætti landlæknis um miðjan mánuðinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert