Rýrnun jöklanna er stærsta einstaka landbreytingin á Íslandi um þessar mundir, að sögn Landmælinga Íslands. Flatarmál jöklanna minnkaði um 215 km2 milli áranna 2012 og 2018. Frá árinu 2000 hefur flatarmál þeirra minnkað um 647 km2 eða um 36 km2 á hverju ári að meðaltali. Það er 5,8% rýrnun á þessu 18 ára tímabili.
Síðujökull, skriðjökull sem gengur suður úr vestanverðum Vatnajökli, hefur hopað jafnt og þétt samkvæmt CORINE-kortlagningu sem byggð er á gervitunglamyndum. Snæfellsjökull hefur einnig minnkað stöðugt frá árinu 2000. Rýrni jökullinn áfram með sama hraða verður hann alveg horfinn árið 2058 að því segir í umfjöllun Morgunblaðsins í dag.