Búið er að ná hestunum sem stöðvuðu umferð um Ártúnsbrekkuna í morgun. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning á áttunda tímanum í morgun um hesta sem þá voru á ferð í Árbænum.
Hestarnir tveir lögðu síðan leið sína niður í Ártúnsbrekkuna þar sem vegfarendur ráku efalítið margir hverjir upp stór augu við að sjá þessa óvæntu farskjóta á ferð eftir götunni.
Hestarnir voru loks stöðvaðir við N1 í Ártúnsbrekkunni að sögn Valgarðs Valgarðssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Engin umferðaróhöpp urðu við þetta óvænta ferðalag hestanna, en umferðatafir urðu hins vegar þó nokkrar.
Talið er að hestarnir hafi sloppið af hesthúsasvæðinu í Víðidalnum.