„Við vorum ekki sáttir við niðurstöðu Mannréttindadómstólsins á sínum tíma og sendum því erindi til yfirdeildar og nú liggur fyrir að hún mun taka málið til efnislegrar skoðunar,“ segir Gestur Jónsson lögmaður í samtali við Morgunblaðið.
Vísar hann í máli sínu til þess að yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg í Frakklandi hefur nú ákveðið að taka fyrir mál lögmannanna Gests Jónssonar og Ragnars Hall í tengslum við Al Thani-málið svonefnda.
Hafði mannréttindadómstóllinn áður hafnað því að íslenska ríkið hefði brotið á þeim Gesti og Ragnari þegar þeim var gert að greiða eina milljón króna hvorum í sekt fyrir að segja sig frá málsvörn í Al Thani-málinu 2013.
Aðspurður segist Gestur ekki vita til þess að yfirdeild hafi áður tekið fyrir mál frá Íslandi. „Ég veit ekki betur en að þetta sé afar fáheyrt.“