Íbúar í fjölbýlishúsi í Norðurmýri í Reykjavík hafa sagt upp leigusamningum sínum og þeir sem eiga íbúðir í húsinu þora ekki út og eru eins og fangar á eigin heimili vegna leigjanda sem leigir íbúð Félagsbústaða í húsinu. Fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Gyða Elín Bergs, íbúi í húsinu, ræddi við Stöð 2 og segir að málið hafi hafist fyrir rúmu ári. Þá hafi maðurinn tekið æðiskast á stigagandi hússins, hótað íbúðum og brotið allar dyrabjöllurnar.
Hún segir jafnframt að íbúar hafi ítrekað kvartað til Félagsbústaða vegna framferðis mannsins og óskað eftir því að hann verði fjarlægður úr húsinu.
„En þau hafa gjörsamlega hundsað okkur mánuðum saman og logið að okkur,“ er haft eftir Gyðu.
Félagsbústaðir hafa keypt þjónustu öryggisgæslufyrirtækisins Securitas til þess að koma til móts við áhyggjur íbúanna, en Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri Félagsbústaða sagði við Stöð 2 að hún gæti ekki svarað því hvort leigusamningi mannsins hefði verið eða yrði sagt upp.
Fram kom í máli hennar að Félagsbústaðir hafi þó tekið ákvörðun um að selja íbúðina, sem er í kjallara hússins. Þá sagði hún einnig að einungis 10 húsaleigusamningum væri sagt upp hjá Félagsbústöðum á ári hverju, vegna brota á húsreglum, en alls leigja Félagsbústaðir út um 2.600 íbúðir í borginni.