„Þeir koma hérna á hverju ári blessaðir,“ segir Gunnar Bjarki Rúnarsson, verslunarstjóri Byko á Selfossi, í samtali við mbl.is en hrafnar hafa komið sér fyrir í laup við skilti fyrir ofan inngang verslunarinnar á hverju vori undanfarin fimm ár.
Hægt er að fylgjast með laupnum á vef Byko en sýnt er beint frá honum allan sólarhringinn. Gunnar segir starfsmenn Byko á Selfossi setja laupinn upp á hverju vori, nokkurn veginn á sama stað. Fuglafræðingur hafi tjáð honum að líklega sé það ekki upphaflega parið sem komi á hverju ári heldur sennilega alltaf ný kynslóð afkomenda þess.
„Þeir láta það ekkert trufla sig að við tökum hreiðrið niður á hverju ári og setjum það síðan upp á vorin,“ segir Gunnar. „Þeir byrja alltaf á þessu á svipuðum tíma.“ Mikið hefur verið horft á streymið frá laupnum að hans sögn og ekki síst í Þýskalandi.
Gunnar segir að áður en laupurinn var settur upp á ný í vor hafi Byko á Selfossi fengið fjölmargar fyrirspurnir um það hvort ekki stæði til að fara að byrja streymið á nýjan leik. Sex ungar eru að sögn Gunnars í laupnum núna, sem er með meira móti.
Spurður hvort eitthvert ónæði hafi verið af hröfnunum segir Gunnar að eina ónæðið hafi verið þegar ungarnir hafa verið að yfirgefa laupinn, en ekki tekist að fljúga beint frá honum. Missi þeir flugið á leiðinni niður geti tekið talsverðan tíma fyrir þá að komast burt. Það hafi í eitt skiptið tekið um tvær vikur og þeir þá verið að hanga á bílum við verslunina.
Gunnar segir að einhverjir hafi gagnrýnt það að verið væri að ala „varginn“ í laupnum en starfsmenn Byko væru hins vegar alls ekki að gefa hröfnunum neitt að borða. „Þeir eru bara þarna.“
Gunnar segir að þetta hafi annars verið ótrúlega skemmtilegt. „Það stoppa heilu rúturnar hérna út af þessu. Þetta hefur gríðarlegt aðdráttarafl.“