Nettó stefnir á plastlausar ávaxtadeildir

Ávaxta- og grænmetisdeild í einni verslana Nettó.
Ávaxta- og grænmetisdeild í einni verslana Nettó. Ljósmynd/Aðsend

Forsvarsmenn Nettó-verslananna hafa sett sér það að markmiði að allar  ávaxta- og grænmetisdeildir í verslunum verði orðnar plastlausar fyrir árslok. Fram kemur á fréttatilkynningu frá Nettó að nú þegar sé mikið hlutfall af lífrænu grænmeti og ávöxtum pakkað í umhverfisvænar umbúðir og að verkefnið sé unnið í samstarfi við birgja. 

Undanfarin ár hefur verið í notkun sérstakt úðakerfi á ávaxta- og grænmetistorgi allra Nettó verslna sem lengi líftíma grænmetis og ávaxta um 30-40%. Þá voru upphafi árs teknir í notkun fjölnotapokar fyrir ávexti og grænmeti sem mælast vel fyrir hjá viðskiptavinum, að því er fram kemur í tilkynningunni.

 „Við viljum sífellt vera að bæta okkur út frá umhverfislegu sjónarmiði og haga verklagi okkar í takti við það,“ er haft eftir Gunnari Agli Sigurðssyni, framkvæmdastjóra verslunarsviðs Samkaupa sem á og rekur m.a. Nettó verslanirnar. Nettó leggi mikla áherslu á að hafa jákvæð áhrif á umhverfið og vilji vera leiðandi í umhverfismálum matvöruverslana hér á landi. 

„Árið 2017 settum við okkur markmið að minnka plastpoka um 1 milljón eða 30% fyrir árslok 2019. Frá árinu 2010 erum við að sjá samdrátt uppá 37% og núna erum við að horfa á 25% samdrátt mánuð fyrir mánuð þannig að við erum fullviss að ná þessu markmiði á þessu ári. Auk þessa erum við að vinna markvisst í að finna umhverfisvænar lausnir, s.s. plastlausar lausnir í einnota vörur fyrir útileguna í sumar, munum hætta sölu á plaströrum og færum okkur yfir í niðurbrjótanleg rör og fleira í þessa átt.“ segir Gunnar Egill.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert