„Það hefur engum verið sagt upp hjá mér. Það er alveg á hreinu. Þetta er algerlega lögleg aðgerð sem ég fer í þar sem ég segi upp launaliðnum. En fólk hefur þar af leiðandi rétt til þess að líta á þetta sem uppsögn. Það hefur þá sjö daga til þess að tilkynna mér að það taki því sem slíku. Það voru tveir starfsmenn sem gerðu það af 50 og annar þeirra dró það til baka. Í hreinskilni sagt fær hinn það ekki, honum hefði hvort sem er verið sagt upp.“
Þetta segir Árni Valur Sólonsson sem rekur hótelin Capital-Inn, City Park Hotel og City Center Hotel, en Efling stéttarfélag hefur sakað hann um hópuppsögn í kjölfar nýgerðra kjarasamninga vegna áðurnefndrar aðgerðar. Þessu vísar Árni Valur alfarið á bug. Hann segist hafa til þessa greitt laun umfram taxta eða sem nemur rúmum 50 þúsund krónum. Hækkunin í kjarasamningum sé honum hins vegar ofviða og því sé farin þessi leið.
„Ég er að breyta vaktafyrirkomulaginu þannig að ég fjölga starfsmönnum, minnka vinnuálagið á fólkið. Ég hélt að það væri líka markmiðið með þessum samningum að minnka álagið,“ segir Árni Valur. „Ég hef verið að hækka launin hjá starfsfólkinu mínu jafnt og þétt í gegnum tíðina en nú er svo komið að ég er 50.449 krónum yfir og þegar þú bætir 17 þúsund krónum ofan á það þá voru launin bara því miður orðin of há hjá mér.“
Þannig segist Árni hafa haft um tvennt að velja í stöðunni. Annaðhvort að segja upp nokkrum starfsmönnum eða að breyta vaktafyrirkomulaginu, segja upp launaliðnum og lækka þannig „bónusgreiðslurnar“, það sem hann hafi greitt umfram það sem kveðið er á um í kjarasamningum. „Það sem ég greiði umfram samninga kemur kommúnistanum í Eflingu ekki nokkurn skapaðan hlut við. Það er bara á milli mín og starfsfólksins.“
Eftir sem áður segist Árni Valur vera að greiða hæstu laun í þessum geira í Reykjavík. „Það er ég alveg sannfærður um. Það er enginn sem greiðir þessi laun jafnt yfir alla nema ég. Það hef ég heyrt frá mínum félögum á hinum hótelunum. [...] Þótt ég lækki launin aðeins á móti þessari hækkun sem kom þá mun ég samt vera að greiða hærri laun en aðrir. Það hefur líka enginn starfsmaður fyrir utan þennan eina sagt upp vegna þess.“
Þannig hafi sá starfsmaður sem tilkynnti að hann liti á aðgerðir Árna Vals sem uppsögn og dregið það síðan til baka áttað sig á því að hann fengi ekki hærri laun annars staðar. Sá starfsmaður hafi hins vegar aðallega verið ósáttur við breytt vaktafyrirkomulag. Þannig fengi hann núna minni yfirvinnu. Starfsmaðurinn fengi minna í launaumslagið en á móti fengju fleiri störf. „Ég er að fjölga störfunum í gestamóttökunni minni um þrjá.“
„Þetta er algerlega lögleg aðgerð hjá mér,“ segir Árni Valur sem segist hafa fengið það staðfest skriflega frá Samtökum atvinnulífsins. Hins vegar sé Það sem Efling sé að reyna að stofna til alls ekki löglegt. Sakar hann stéttarfélagið um helbera lygi og rangtúlkanir. Segir hann Eflingu ekki hafa haft samband við sig áður en stéttarfélagið hafi farið með málið í fjölmiðla. Greinilegt sé að félagið beri ekki hag félagsmanna sinna fyrir brjósti.