Vísir að skógi úr „holu íslenskra fræða“ afhentur Skógræktarfélagi Reykjavíkur

Guðrún Nordal afhendir Jóhannesi Benediktssyni, formanni Skógræktarfélagi Reykjavíkur, trjáplöntu.
Guðrún Nordal afhendir Jóhannesi Benediktssyni, formanni Skógræktarfélagi Reykjavíkur, trjáplöntu. mbl.is/​Hari

Guðrún Nordal, forstöðumaður stofnunar Árna Magnússonar, afhenti í dag Skógræktarfélagi Reykjavíkur tré sem fjarlægð voru úr svokallaðri „holu íslenskra fræða“ þar sem Hús íslenskunnar á að rísa. 

Fór afhending trjánna fram í lok ársfundar stofnunar Árna Magnússonar í morgun. Lét Guðrún þess getið við afhendingu að búið væri að kolefnisjafna fyrir fundinn þar sem prentaðri ársskýrslu stofnunarinnar var dreift.

Guðrún Nordal með framtíðarskóglendi í Holu íslenskra fræða
Guðrún Nordal með framtíðarskóglendi í Holu íslenskra fræða mbl.is/​Hari

Trén umræddu og annar gróður höfðu fengið að vaxa óáreitt í holunni á þeim árum sem hún hefur staðið óhreyfð en framkvæmdir hefjast von bráðar á svæðinu. 

Í gær var staðfest að haldið yrði áfram með byggingu Húss íslenskunnar. Hefur verkefnið haft langan aðdraganda en það var samþykkt á Alþingi árið 2005 og fyrsta skóflustungan var gerð á svæðinu í mars 2013.

Var framkvæmdum þó frestað tímabundið í kjölfar efnahagshrunsins og hefur holan staðið óáreitt síðan og ýmiss konar gróður skotið þar rótum. 

Mun byggingin geyma sérhönnuð rými fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á skinnhandritum. Mun Stofnun Árna Magnússonar, sem sér um umsjón íslenskra skinnhandrita, hafa aðstöðu í húsinu ásamt íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Trjáplanta afhent Jóhannesi Benediktssyni, formanni Skógræktarfélagi Reykjavíkur og Helga Gíslasyni …
Trjáplanta afhent Jóhannesi Benediktssyni, formanni Skógræktarfélagi Reykjavíkur og Helga Gíslasyni framkæmdarstjóra félagsins. mbl.is/​Hari

Í upplýsingum frá Stofnun Árna Magnússonar kemur fram að starfsmenn stofnunarinnar hafi tekið upp um hundrað sjálfsáðar plöntur og sett þær í potta. Kemur þar fram að nóg sé enn eftir af trjáplöntum í holunni.

Helgi Gíslason, framkvæmdarstjóri Skógæktarfélags Reykjavíkur, og Jóhannes Benediktsson, formaður félagsins, veittu trjáplöntunum viðtöku og sögðust mundu sjá til þess að ræktaður yrði upp trjálundur sem myndi minna á auðlegðina sem fælist í íslenskum fræðum.

Er stærsta trjáplantan sem var afhent sögð hafa verið um 2,5 m á hæð en hún á að hafa skotið djúpum rótum í grunninum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert