Borgarráð samþykkti á fundi í dag meginlínur og samningsmarkmið í viðræður við olíufélögin með það að markmiði að fækka bensínstöðvum í borginni um helming. Frá þessu greinir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á Facebook.
Dagur segir að í stað bensínstöðva komi íbúðauppbygging, hverfisverslanir eða önnur starfsemi á lóðunum.
„Skilgreindir hafa verið hvatar fyrir olíufélögin til að hraða þessari umbreytingu í samvinnu við borgina í græna átt. Loftslagsáætlun borgarinnar gerir ráð fyrir að stöðvunum verði fækkað um helming fyrir árið 2030 en nú brá svo við að borgarráði leist svo vel á uppleggið að það sameinaðist um að herða á markmiðinu og stefna á að ná því fyrir árið 2025,“ skrifar Dagur á Facebook.