Biðlistar eftir brennsluaðgerðum vegna gáttatifs og annarra hjartsláttartruflana á Landspítala eru heldur að styttast, að sögn Davíðs O. Arnar, yfirlæknis hjartalækninga. Um 200 manns eru nú á biðlista eftir brennslu vegna gáttatifs og álíka stór hópur bíður eftir brennslu vegna annarra hjartsláttartruflana. Biðtíminn er nú allt að tveimur árum. Jafnt og þétt bætist á biðlistann en Davíð segir að staðan sé alls ekki viðunandi.
Gáttatif er algengt og getur haft alvarlegar afleiðingar eins og heilaáföll. Talið er að um þriðjungur þeirra tengist takttrufluninni. Blóðsegar geta myndast í hjartanu, losnað þaðan og farið til heilans þar sem þeir geta valdið drepi með oft á tíðum mikilli færniskerðingu. Brennsluagerðir eru orðnar lykilmeðferð við gáttatifi.
„Við höfum gert heilmikið í því að taka á þessum vanda með biðlistana undanfarin ár. Við höfum ráðið fleiri lækna með sérþekkingu á hjartsláttartruflunum en brennsluaðgerðir eru mjög tæknilega krefjandi og þarf mikla sérhæfingu til að framkvæma þær. Sömuleiðis höfum við bætt aðstöðuna á hjartaþræðingastofu fyrir þessar tegundir aðgerða og fjölgað dagdeildarplássum fyrir þessa sjúklinga. Biðlistarnir eru eigi að síður ennþá langir og fyrir því eru nokkrar ástæður,“ sagði Davíð. Örfá ár eru síðan heimilað var að fjölga brennsluaðgerðum vegna gáttatifs. Fram að því höfðu verið gerðar 20-25 gáttatifsbrennslur á ári. Árið 2018 voru til að mynda gerðar um 100 aðgerðir vegna gáttatifs og stefnir í 150 á þessu ári. En betur má ef duga skal.
„Við erum nú að vinna niður nokkurra ára uppsafnaðan vanda,“ sagði Davíð. „Við getum tekið á þessu vandamáli en verðum að fá áfram fjármagn til að geta aukið fjölda aðgerða. Ef það tekst er ég jákvæður á að eftir 18-24 mánuði verði biðlistar komnir í jafnvægi og biðtími orðinn eðlilegur. Til þess þurfum við að gera 150-200 gáttatifsbrennslur á ári.“ Davíð telur að 3-6 mánuðir geti talist eðlilegur biðtími.
Hver aðgerð kostar í kringum eina milljón króna. Lítið hefur verið um það að einstaklingar með gáttatif hafi farið utan til brennsluaðgerða. Mjög margir á biðlista eiga þó sennilega rétt á því ef þeir hafa beðið í meira en þrjá mánuði. Davíð segir að það yrði talsvert dýrara fyrir ríkið að senda sjúklinga til útlanda í aðgerðir heldur en að gera þær á Landspítala.
Forgangsraðað er á biðlistum eftir alvarleika vandamálsins hjá sjúklingum. Sumir fá sjaldnar gáttatifsköst og þola lengri bið en aðrir fá mjög tíð einkenni og þurfa að komast að sem fyrst. Ýmist er beitt brennslu eða frystingu og er misjafnt eftir sjúklingum hvor aðferðin hentar betur. Eins og staðan er nú gæti Landspítali gert 25-30 slíkar aðgerðir á mánuði. Það eru jafn margar aðgerðir og gerðar voru á heilu ári fyrir ekki svo löngu síðan. Fólk liggur oft inni eina nótt eftir aðgerðina en sumir sjúklingar fara heim samdægurs.
Um 6.000 Íslendingar hafa greinst með gáttatif en það einkennist af óreglulegum og oft á tíðum hröðum hjartslætti. Flestir sem fá gáttatif eru komnir yfir miðjan aldur en þó er vel þekkt að yngra fólk fái takttruflunina. Þeir sem yngri eru eru oft með meiri einkenni og er sjúkdómurinn oft erfðari viðureignar hjá þeim. Brennsluaðgerð hentar oft mjög vel gegn gáttatifi hjá þeim sem yngri eru. Aðrir áhættuþættir gáttaitfs eru sjúkdómar eins og háþrýstingur, hjartabilun og sykursýki sem og nýrri lífstílssjúkdómar eins og offita og kæfisvefn.
„Brennsluaðgerð er kannski besta úrræðið sem við eigum í dag við gáttatifi,“ sagði Davíð. „Áður fyrr var lyfjameðferð aðalúrræðið en árangur oft takmarkaður. Rannsóknir hérlendis benda til að algengi gáttatifs muni þrefaldast á næstu þremur til fjórum áratugum og eftirspurnin eftir meðferð halda áfram að aukast. Við megum því hvergi gefa eftir í viðleitni okkar til að koma böndum á biðlistavandann.“