Flugviskubitið kemur SAF ekki á óvart

Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/​Hari

Hugtakið „flugviskubit“ komst nýverið inn í umræðuna hér á landi. Er með því vísað til þess þegar ferðalangar fá samviskubit yfir flugferðum sínum og því kolefnisfótspori sem þeim fylgir. Til að bregðast við þessari vakningu hafa ferðaskrifstofur víða í Evrópu meðal annars hafið að bjóða upp á lestarferðir til framandi staða í stað flugferða.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), segir samtökin meðvituð um flugviskubit fólks.

„Að þetta sé komið upp í umræðunni hér kemur okkur ekki á óvart. Í nágrannalöndum okkar, s.s. Svíþjóð og Danmörku, höfum við verið að sjá þá umræðu að ferðamenn hugsa töluvert um áhrif ferðalags síns með tilliti til útblásturs. Þetta er ekki einungis tengt flugi heldur einnig öðru er varðar ferðalög,“ segir hann og bætir við að ferðaþjónustan hér á landi þurfi því að horfa til þessa.

„Við hjá Samtökum ferðaþjónustunnar erum þegar byrjuð að horfa til þess hvernig við getum fótað okkur í þessum málum og almennt er mikill vilji hjá ferðaþjónustufyrirtækjum til að taka þátt í þessu, enda er ferðaþjónusta og náttúruvernd samofin,“ segir Jóhannes Þór og heldur áfram: „Meðal þess sem við erum að horfa á hér er kolefnisjöfnun fyrirtækjanna og hvernig hægt er að ýta undir orkuskipti í samgöngum.“ Þá segir hann uppi þá hugmynd að setja á stofn kolefnisjöfnunarverkefni sem beint er að ferðamanninum sjálfum svo hann geti með góðri samvisku ferðast til Íslands. „Það skiptir máli að fara í svona verkefni af fullum þunga,“ segir Jóhannes Þór.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert