Gæti teflt EES-aðildinni í tvísýnu

Carl Baudenbacher, fyrrverandi dómari við EFTA-dómstólinn.
Carl Baudenbacher, fyrrverandi dómari við EFTA-dómstólinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Til lengri tíma litið gæti höfnun Íslands á þriðja orkupakkanum teflt í tvísýnu aðild landsins að EES-samningnum,“ segir Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins, í lögfræðiáliti fyrir utanríkisráðuneytið sem birt er á vef utanríkisráðuneytisins.

Baudenbacher segir ástæðu þess þá að sú skoðun hafi alltaf verið til staðar í Noregi að túlka ætti EES-samninginn á þann veg að um tvíhliða samning væri að ræða á milli Norðmanna og Evrópusambandsins þar sem Íslendingar og Liechtensteinar væru í eins konar aukahlutverki. Þær skoðanir myndu þá hljóta aukinn stuðning.

Ekki væri hægt að útiloka það að höfnuðu Íslendingar þriðja orkupakkanum myndi Noregur að lokum ákveða að semja tvíhliða við Evrópusambandið um orkumál. Þar með gæti aðild Íslands að EES-samningnum til lengri tíma verið í uppnámi. Baudenbacher segir að Ísland hafi skyldu til þess að sýna Noregi og Liechtenstein hollustu í EES-samstarfinu.

„Nú þegar Liechtenstein og Noregur hafa aflétt stjórnskipulegum fyrirvörum þá ætlast ríkin til þess að Ísland geri slíkt hið sama,“ segir Baudenbacher og minnir á að öll þrjú EFTA/EES-ríkin verði að tala einni rödd í EES-samstarfinu. Þar af leiðandi taki þriðji orkupakkinn ekki gildi fyrir þau komi til þess að Ísland segi nei.

Baudenbacher segist telja litlar líkur á að Ísland fengi undanþágu frá þriðja orkupakkanum ef málið færi aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar í kjölfar þess að Ísland hafnaði því að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara af honum.

Þrátt fyrir að Ísland hafi rétt til þess að neita því að samþykkja þriðja orkupakkann telur Baudenbacher ekki að umrætt mál réttlæti það að grípa í slíkan neyðarhemil. Ísland hafi haft næg tækifæri til þess að gera athugasemdir áður en orkupakkinn var tekinn upp í EES-samninginn af sameiginlegu EES-nefndinni en ekki gert það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert