Lögmaður flugvélaleigusalans ALC er sakaður um að nota fjölmiðla til þess að bera á borð fullyrðingar um stjórnendur Isavia sem ekki standist skoðun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia.
ALC og Isavia hafa tekist á fyrir dómstólum vegna kyrrsetningar flugvélar ALC, sem WOW air hafði á leigu, á Keflavíkurflugvelli. Samkomulag ríkti milli WOW og Isavia um að ein flugvél flugfélagsins yrði á flugvellinum sem trygging fyrir skuldum WOW við Isavia.
Lögmaður ALC segir í Viðskiptablaðinu í dag að það hafi vakið athygli að í upphaflegri greiðsluáætlun WOW air hafi verið tekið út ákvæði um að ein vél WOW air skyldi ávallt vera á Keflavíkurflugvelli.
„Þeir vita að það þolir ekki dagsljósið að áskilja sér tryggingu í eign þriðja manns fyrir slíkri skuldasöfnun,“ var haft eftir Oddi Ástráðssyni, lögmanni ALC, í Viðskiptablaðinu.
Fram kemur í tilkynningu Isavia að það hafi verið að beiðni WOW air að hafa tvenn aðskilin gögn um málið. Annars vegar greiðsluáætlun og hins vegar yfirlýsingu um að ein flugvél WOW yrði ávallt á Keflavíkurflugvelli eða á leið þangað.
„Gera má ráð fyrir að lögmanni ALC sé fullkunnugt um þetta. Enn einu sinni notar hann fjölmiðla til þess að bera á borð fullyrðingar um stjórnendur Isavia sem ekki standast skoðun. Farið er af stað með dylgjur í garð þeirra sem tóku erfiðar ákvarðanir um rekstur Isavia – ákvarðanir sem teknar voru á viðskiptalegum forsendum með hag Isavia að leiðarljósi,“ kemur enn fremur fram í tilkynningunni.
Því er vísað á bug að ALC hafi ekki verið upplýst um stöðu mála. Isavia standi ekki í veg fyrir því að afhending flugvélarinnar fari fram gegn viðunandi tryggingu – svo sem eins og bankatryggingu, með fyrirvara um lögmæti kröfunnar.