Ófremdarástand vegna eftirlitsleysis

Jón Magnússon segir ófremdarástand ríkja í dómskerfinu vegna eftirlitsleysis með …
Jón Magnússon segir ófremdarástand ríkja í dómskerfinu vegna eftirlitsleysis með skiptastjórum.

Jón Magnússon, lögfræðingur og fv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir ófremdarástand ríkja í dómskerfinu vegna eftirlitsleysis með skiptastjórum. „Það er engan veginn fullnægjandi neytendavernd að héraðsdómur hafi ekki eftirlit með þeim mönnum sem þeir skipa í þessi störf, sem stunda sumir sjálftöku í þessum málum,“ segir Jón.

Þetta segir hann inntur álits á frásögn Guðjóns Sigurbjartssonar viðskiptafræðings sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Sá segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við skiptastjóra bús frænku sinnar. Jón áréttar þó að hann þekki ekki til hlítar málavöxtu þar en að hans orð séu almennt um þá annmarka sem hann telur vera á þessum málum hjá dómstólum, fremur en um framvinduna í því tiltekna máli.

Jón furðar sig á því að ekki séu viðhöfð sömu vinnubrögð við skipun skiptastjóra og við skipun annarra starfsmanna dómsins. „Menn vinna í opinberum málum sem skipaðir réttargæslumenn eða verjendur sakborninga. Menn koma með sína tímaskrá og bera þá undir dómstólinn. Dómstóllinn tekur ákvörðun um hvort hún er réttmæt eða ekki og ákvarðar þóknun lögmannsins,“ segir Jón. „Af hverju á ekki það sama við um skiptastjóra?“ spyr hann.

Engar skýrar reglur gildi um skipun skiptastjóra, ólíkt til dæmis skipun opinberra réttargæslumanna. „Þetta er eitthvað sem er óskaplega sérkennilegt og tilviljanakennt hjá héraðsdómum. Ég hef ekki getað séð að sé kerfi utan um það yfir höfuð. Mér sýnist það frekar vera vina- og kunningjasamband sem ræður, fremur en eitthvað annað,“ segir hann.

Auk þess segir hann spurning um neytendavernd að héraðsdómur fylgi málum þeirra skiptastjóra eftir sem hann skipar. „Það er nánast ekkert eftirlit með störfum skiptastjóra. Þetta eru oft viðkvæm mál, sem er fjallað um og oft vakna spurningar um hvort eigi að kæra mál eða ekki kæra mál. Þannig að mínu viti ríkir ófremdarástand í þessum málaflokki vegna eftirlitsleysis með skiptastjórum,“ segir Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert