Reyna að fá þotuna afhenta

TF-GPA hefur verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli frá 18. mars.
TF-GPA hefur verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli frá 18. mars. Ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson

Aðfararbeiðnin sem flugvélaleigufyrirtækið ALC lagði fram gegn Isavia á mánudag verður tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjaness kl. 15:30 í dag.

ALC gerir kröfu um að Isavia afhendi fyrirtækinu farþegaþotu sem kyrrsett hefur verið á Keflavíkurflugvelli, enda sé búið að greiða 87 milljóna króna skuldir vegna hennar í samræmi við úrskurð héraðsdóms í síðustu viku.

Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC, segist í samtali við mbl.is ekki búast við því að niðurstaða muni liggja fyrir í dag.

Hann segir að honum þyki líklegt að lögmenn Isavia reyni að færa fyrir því rök að kröfum ALC beri að vísa frá þar sem Isavia hafi kært fyrri úrskurð.

„Við færum fyrir því rök í okkar nýju aðfararbeiðni að það sé algjör óþarfi að gefa þeim frest til að skila greinargerð og flytja málið upp á nýtt og að það sé bara hægt að taka ákvörðun strax. Þetta eru þau tvö atriði sem verður væntanlega fjallað um,“ segir Oddur, en honum finnst þó langlíklegast að Isavia fái skamman frest til að skila greinargerð og málið verði svo tekið upp eftir það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert