Áfram í farbanni vegna stór­fellds fíkni­efna­brots

Mennirnir eru grunaðir um rækt­un kanna­bisplantna, pen­ingaþvætti og þjófnað á …
Mennirnir eru grunaðir um rækt­un kanna­bisplantna, pen­ingaþvætti og þjófnað á raf­magni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Héraðsdómur Suðurlands hefur framlengt farbann yfir tveimur erlendum ríkisborgurum sem grunaðir eru um rækt­un kanna­bisplantna, pen­ingaþvætti og þjófnað á raf­magni, til 7. júní. Fyrri úrskurður um farbann yfir mönnunum rann út í dag.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir í samtali við mbl.is að rannsókn málsins miði ágætlega en að það taki tíma að afla gagna.

Í úr­sk­urði héraðsdóms frá 12. apríl, sem Lands­rétt­ur staðfesti fjórum dögum síðar, kem­ur fram að við leit lög­reglu í sum­ar­húsi, þar sem annar maður­inn var hand­tek­inn, hafi komið í ljós sér­út­bú­in rækt­un­araðstaða fyr­ir kanna­bis­plönt­ur í fimm rým­um húss­ins og einnig í hjól­hýsi á lóðinni.

Lög­regla hafi enn frem­ur lagt hald á mikið magn kanna­bisplantna, græðlinga, stöngla og laufa, auk búnaðar til rækt­un­ar, en í far­banns­kröfu lög­reglu­stjór­ans á Suður­landi seg­ir að til rann­sókn­ar séu meðal ann­ars ætluð stór­felld brot manns­ins á ákvæðum laga um áv­ana- og fíkni­efni.

Hinn maður var einnig hand­tek­inn á vett­vangi, en hann var með í fór­um sín­um mikið reiðufé sem lagt var hald á. Einnig var gerð hús­leit í nær­liggj­andi sum­ar­húsi þar sem hand­tek­inn var þriðji maður­inn. Fannst sams kon­ar rækt­un þar að því er seg­ir í úr­sk­urði dóm­stóls­ins. Ekki hefur verið farið fram á farbann yfir honum.

Á báðum stöðum hafði verið tengt fram hjá raf­magni með sam­bæri­leg­um hætti. Því tel­ur lög­regla ástæðu til að ætla að sömu aðilar hafi staðið að rækt­un og þjófnaði á raf­magni á báðum stöðum.

Hef­ur hún sömu­leiðis sterk­an grun um að maður­inn sem nú er í far­banni teng­ist báðum fram­an­greind­um fíkni­efna­rækt­un­um, sölu/​dreif­ingu fíkni­efna, pen­ingaþvætti og þjófnaði á raf­magni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert