Eigandi peninganna ekki fundist

Fundvís og heiðarleg eldri kona fann peningana fyrir utan Nettó …
Fundvís og heiðarleg eldri kona fann peningana fyrir utan Nettó á Selfossi 1. maí síðastliðinn. mbl.is/Golli

Eigandi peninga sem fundust við Nettó á Selfossi 1. maí síðastliðinn hefur ekki gefið sig fram. Eldri kona fann peningana og lét lögregluna á Selfossi vita. Þeir sem hafa upplýsingar eða telja sig eiga peningana eru beðnir um að setja sig í samband við lögregluna á Suðurlandi. 

Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Suðurlandi segir ekki algengt að heiðarlegir borgarar skili inn fundnu fé á lögreglustöðina. „Ætli það sé ekki algengara að fólk láti engan vita og trítli með peningana heim til sín?“ segir Oddur. 

Ef eigandinn gefur sig ekki fram eftir ár renna þeir að hluta til finnandans, samkvæmt lögum sem tóku gildi hér 8. júní 1811, segir Oddur og les glefsur úr lögunum fyrir blaðamann. Í þeim lögum sem nefnast, Opið bréf (frá kansellíinu) um meðferð á fundnu fé í kaupstöðum, segir að ef eigandinn gefur sig ekki fram „skuli selja hið fundna handa lögreglusjóðnum, og finnandi þá fá þriðjung þess í fundarlaun.“

Oddur segir dæmi um að þessum lögum hafi verið framfylgt þótt það sé ekki algengt. 

Eðli málsins samkvæmt fengust hvorki frekari upplýsingar um hversu há upphæðin er né í hvaða mynt peningarnir eru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert