Fjórða ganga Píeta samtakanna „Úr Myrkrinu í Ljósið“ eða „Darkness into Light“ fer fram aðfararnótt 11. maí, en þar verður gengin 5 kílómetra leið úr næturmyrkri inn í dagrenningu, úr myrkri í ljós. Gangan hefst klukkan þrjú í nótt.
Gangan er í minningu þeirra sem látist hafa í sjálfsvígi og til að efla von þeirra sem eiga um sárt að binda vegna vanlíðanar, sjálfsvígshugsana og sjálfsskaða.
Gengið er til styrktar Píeta samtökunum sem bjóða nú ókeypis úrræði fyrir fólk í sjálfsvígshugleiðingum, við sjálfsskaða og veita aðstoð fyrir aðstandendur og þá sem misst hafa ástvini í sjálfsvígi.
Gangan fer fram á fjórum stöðum á landinu, Reykjavík, Akureyri, Ísafirði og Seyðisfirði sem og í fjölmörgum löndum og er reiknað með að yfir 400.000 manns gangi úr myrkri inn í birtu á sama tíma.
Gangan er aðfararnótt 11.maí og í Reykjavík hefst gangan kl. 3:00 við húsnæði KFUM og KFUK við Holtaveg í Laugardal. Gangan er stór þáttur í vitundarvakningu Íslendinga, falleg stund þar sem minningar og samhugur sameinast. Jói P og Króli skemmta sem og Þráinn úr Skálmöld.
Hægt er að skrá sig í gönguna og fá nánari upplýsingar á vefsíðunni https://www.darknessintolight.ie/venue og á Facebook-síðunni https://www.facebook.com/events/394246624675169/
Upplýsingar veitir Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta samtakanna á Íslandi.
Píeta samtökin voru stofnuð á Íslandi árið 2016 en halda upp á árs starfsafmæli nú í ár. Þörfin á Píeta samtökunum hefur sannað sig á þessu ári en sem dæmi má nefna að 19 meðferðarviðtöl voru veitt í apríl í fyrra en 158 í apríl á þessu ári.