Megi ekki styggja Norðmenn og ESB

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér þykir nú nokkuð sérstakt að á þessum tímapunkti skuli ríkisstjórnin sjá ástæðu til þess að kaupa lögfræðiálit frá útlöndum,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í samtali við mbl.is um stöðuna í umræðum um þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Vísar hann þar til álitsgerðar Carls Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, sem hann vann fyrir utanríkisráðuneytið.

„Við sáum að það hafði verið sett af stað ákveðið samstillt átak í vikunni í þágu samþykktar þriðja orkupakkans og þetta er væntanlega hluti af því. Þetta vekur náttúrulega upp ýmsar spurningar. Til dæmis varðandi meðferð á skattfé og að stjórnvöld noti slíkar aðferðir á þessu stigi málsins,“ segir Sigmundur. Það vakti athygli að fulltrúi Miðflokksins var ekki staddur á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í gær þar sem meðal annars var rætt við Baudenbacher. Spurður um það segir hann:

„Fyrir það fyrsta væri hægt að skrifa daglegar fréttir um það ef það teldist frétt að fulltrúi einhvers flokks mætti ekki á nefndarfund. En ég vissi hins vegar ekki af þessum fundi. Það var ekki rætt um hann síðast þegar ég sat fund í nefndinni heldur aðeins talað um að fundur yrði í dag. Þannig að þau hafa greinilega viljað halda þessu útspili sínu leyndu. Þingflokkur Miðflokksins var allur í húsi á hinum ýmsum fundum á þessum tíma og ef boð hefði komið í tæka tíð hefðum við örugglega viljað mæta þarna.“ Það segði sitt um málstaðinn þegar reynt væri að láta umræðuna snúast um svona atriði.

Sambandsleysi milli flokksins og forystunnar

Fjallað var í dag í fjölmiðlum að mikil óánægja væri innan Framsóknarflokksins með stuðning forystu flokksins við samþykkt þriðja orkupakkans. Sigmundur, sem var áður formaður Framsóknarflokksins, segir að það hljóti að valda framsóknarmönnum áhyggjum að forystan skuli ekki grípa í taumana. Forystan hafi gefið ýmislegt eftir vegna stjórnarsamstarfsins og lítið farið fyrir því að kosningaloforð væru efnd.

„Maður hefði hins vegar haldið að í svona grundvallarmáli, sem varðar bæði fullveldið og orkuauðlindina, ætti forysta Framsóknarflokksins að láta til sín taka,“ segir Sigmundur. Þó miðstjórn Framsóknarflokksins hefði hafnað þriðja orkupakkanum fyrir jól og stefnan samþykkt á flokksþingi á síðasta ári væri skýr gegn pakkanum ætti greinilega ekki að fara eftir því. „Það er alveg merkilegt hvað það virðast vera lítil tengsl á milli þess sem flokkurinn samþykkir og þingflokkurinn síðan gerir.“

Hvað stöðuna varðandi þriðja orkupakkann varðar segir Sigmundur að það væri ekki lengur deilt um það að Ísland hefði þann rétt samkvæmt EES-samningnum að neita að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara af löggjöfinni. „Hins vegar er umræðan núna komin yfir í það að til þess að styggja ekki Norðmenn eða Evrópusambandið eða einhverja aðra þá eigum við að líta framhjá þessum rétti okkar. Sem aftur sýnir það, hafi einhverjir haft efasemdir um það, að þetta er í eðli sínu fullveldismál.“

„Með því væri verið að verja EES-samninginn“

Boðuð hefur verið yfirlýsing frá sameiginlegu EES-nefndinni síðar í dag þar sem áréttuð verði sérstaða Íslands gagnvart orkumarkaði Evrópusambandsins þar sem enginn sæstrengur sé á milli Íslands og Evrópu. Sigmundur segir furðulegt, fyrst þetta er afstaða sambandsins og nefndarinnar að ekki skuli þá vera hægt að fá þetta formlega samþykkt með lagalega bindandi hætti í sameiginlegu nefndinni með því að málið fari aftur þangað í kjölfar þess að Alþingi aflétti ekki fyrirvaranum.

„Ef Evrópusambandinu og sameiginlegu EES-nefndinni er alvara með þessu, hver er þá fyrirstaðan að gera þetta formlega?“ segir Sigmundur. Þannig hafi Stefán Már Stefánsson lagaprófessor og Friðrik Árni Friðriksson Hirst landsréttarlögmaður bent á það á fundi utanríkismálanefndar í síðustu viku að hin lagalega rétta leið samkvæmt EES-samningnum væri að vísa þannig málinu aftur til nefndarinnar. „Með því væri verið að verja EES-samninginn. Að gera þetta á réttan hátt samkvæmt honum. Með hinu, að keyra málið í gegn, væri fyrst verið að setja samninginn í uppnám.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert