Hið árlega reiðhjólauppboð lögreglunnar fer fram á morgun. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu verða hjólin á uppboðinu 70-80 talsins. Eru hjólin óskilamunir sem hafa verið í vörslu lögreglunnar í að minnsta kosti eitt ár og einn dag. Einnig verða á boðstólnum aðrir munir, til dæmis barnavagnar.
Að sögn Þóris Ingvarssonar sem stýrir þjónustudeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu rennur ágóði uppboðsins í lögreglusjóðinn.
Segir hann sjóðinn veita peningum í allskonar verkefni, meðal annars mannúðarverkefni en Þórir veit til þess að lögreglukórinn hefði fengið styrki úr sjóðnum og að hluti hafi verið gefinn til styrktar líknarsjóði.
„Það hefur verið ákveðin umræða um það hvort þetta sé eðlilegt fyrirkomulag eða hvort peningarnir eigi að renna annað,“ segir Þórir. „Lögreglusjóður er ákvarðaður í kensellíbréfi. Það er frá 1811 og vitnar í opið bréf frá Kaupmannahöfn frá 1767.“
Segir hann lögin ekki vera þau elstu á Íslandi en augljóslega nokkuð gömul. Þar er ákveðið hvernig meðferð á fundnu fé í kaupstöðum eigi að vera háttað bæði á Íslandi sem og í Danmörku. Segir Þórir að búið sé að fella lögin úr gildi í Danmörku en hér á landi séu þau enn við lýði.
„Svo þaðan kemur þetta. Mörgum finnst mjög skrýtið að peningurinn fari í þennan lögreglusjóð en það að hann skuli renna þangað er bara eldgömul ákvörðun. Lögreglusjóðurinn er síðan starfræktur og gefur peninga í allskonar verkefni,“ segir Þórir.
Hann tekur fram að lögreglan hafi margsinnis í áranna rás lagt til að það hvernig ágóðanum af endursölu er hagað sé endurskoðað. Segir hann þó að upphæðirnar á uppboðunum hafi farið lækkandi.
„Við viljum alltaf nýta tækifærið og minna á að við gerum allt sem við getum til að koma mununum til eigenda sinna. Við bendum á að við erum með Pinterest síðu þar sem við birtum öll reiðhjól og allt annað sem berst til okkar: veski, rafmagnssúrur, hleðslusnúrur fyrir rafmagnsbíla og allt hitt sem berst sem við náum ekki að koma út,“ segir Þórir.
„Okkar hagur er að selja sem minnst af munum. Við viljum koma þeim öllum út.“
Þórir segir uppboðið orðið árvisst fyrirbæri sem margir bíði spenntir eftir. „Það verður samt að segjast að mörg hjólanna eru í döpru ástandi og hafa verið fundin á víðavangi, jafnvel ofan í tjörnum,“ segir Þórir. „Allt sem er selt þarna er selt bara eins og það kemur fyrir. Þetta eru bara óskilamunur.“
Uppboðið verður haldið í húsnæði Vöku, Skútuvogi 8, og hefst kl. 11.