Umhverfis- og heilbrigðisráð Reykjavíkur hefur samþykkt að selir fái friðhelgi á strandsvæðum og við árósa í Reykjavík. Ráðið vill að allri veiði á bæði land- og útsel verði hætt innan lögsögu borgarinnar.
Þá hvetur ráðið þá sem stunda netaveiði í Faxaflóa til að gera sitt til að koma í veg fyrir að selir lendi í netum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Varla er hægt að segja að selir hafi verið veiddir fyrir landi Reykjavíkur undanfarin ár, að sögn Guðmundar Björnssonar, rekstrarstjóra meindýravarna hjá Reykjavíkurborg. Hann telur að þrír selir hafi verið veiddir á þrjátíu árum síðan hann hóf störf.