Skipuriti Landspítala breytt á næstunni

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að tími sé kominn til …
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að tími sé kominn til að endurskoða skipurit Landspítalans, sem staðið hefur nær óbreytt í tíu ár. mbl.is/Golli

Ráðist verður í breytingar á skipuriti Landspítalans á næstunni. Frá þessu greindi Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, á stjórnendafundi spítalans í vikunni. „Að stofni til hefur skipuritið okkar verið óbreytt í 10 ár og sannarlega kominn tími til að endurskoða það,“ segir Páll í vikulegum forstjórapistli sínum.

Hann segir skipuritið hafa þjónað tilgangi sínum ágætlega í kjölfar hrunsins en nú verði að endurstilla fókusinn og stefnt „að því að draga úr þeim sílóum sem eðli máls samkvæmt myndast oft í starfsemi stofnana og fyrirtækja.“

Skipurit Landspítalans hefur staðið nær óbreytt í áratug.
Skipurit Landspítalans hefur staðið nær óbreytt í áratug. Mynd/Landspítalinn

Þá þurfi að horfa til þess að verkefni spítalans og þarfir sjúklinga hafa tekið miklum breytingum undanfarinn áratug. „Skipulag okkar þarf að taka mið af því og það er einnig hluti af þeim undirbúningi sem flutningur starfseminnar í nýjan meðferðarkjarna - eftir örfá ár - krefst af okkur.“

Nákvæmlega hvaða breytingar verða á skipulaginu og hvenær þær verða kemur ekki fram í pistli Páls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert