„Það er afar merkilegt að formaður Miðflokksins ráðist nú að því að einhver leynd hafi hvílt yfir fundi utanríkismálanefndar í gær. Ég veit ekki hvernig hægt er að fá það út,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálsnefndar Alþingis, á Facebook-síðu sinni en athygli vakti að fulltrúi Miðflokksins sat ekki fund nefndarinnar í gær um þriðja orkupakkann. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði við mbl.is í dag að þingmenn flokksins hefðu ekki vitað um fundinn. Mætt hefði verið á hann ef boð á hann hefði borist í tæka tíð.
„Fundur utanríkismálanefndar sem haldinn var í gær fimmtudaginn 9. maí kl. 13:00 var boðaður með SMS-skilaboðum og tölvupósti sem send voru miðvikudaginn 8. maí kl. 16:13 og 16:18. Ekkert er óvanalegt við þá fundarboðun eða fyrirvara. Fundartafla nefndardaga var send öllum þingmönnum í tölvupósti mánudaginn 6. maí kl. 15:06 og þar kom skýrt fram að utanríkismálanefnd ætti fundartíma frá kl. 13:00 á fimmtudeginum 9. maí svo sá fundartími getur ekki hafa komið á óvart. Að auki má auðvitað nefna að tímasetning og dagskrá nefndarfunda birtist alltaf líka undir flipanum „fundir og heimsóknir“ á heimasíðu þingsins,“ segir Áslaug Arna enn fremur vegna ummæla Sigmundar.
Þar að auki hafði verið farið yfir dagskrá fundarins í utanríkismálanefnd í gær á morgunfundi nefndarinnar á miðvikudaginn sem og upptalningu á öllum gestum fundarins. „Ég hafði einnig nefnt það við fulltrúa Miðflokksins að fimmtudagsfundurinn væri einstaklega langur og þéttur,“ segir Áslaug og bætir við: „Ég mæli með að fara frekar í málefnaumræðu um orkupakkann í stað þess að reyna tortryggja hefðbundna fundi nefndarinnar sem Miðflokksmenn hreinlega gleymdu eða kusu að mæta ekki á.“