„Verkefnið gengur vel og undirbúningur er á fullu,“ segir Guðjón Arngrímsson, einn forvarsmanna uppbyggingar nýs miðbæjar á Selfossi. Fyrsta skóflustungan að nýjum miðbæ var tekin í nóvember síðastliðnum eftir að bæjarráð Árborgar samþykkti framkvæmdaleyfi.
Guðjón segir að síðasta hálfa ár hafi farið í undirbúning sem hafi tekið lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir. „Veturinn fór í jarðvinnu og lagnafrágang og annan undirbúning fyrir uppsteypu og smíði húsanna, sem Jáverk annast og er að hefjast um þessar mundir,“ segir hann. Stefnt er að því að byggingakranar verði komnir upp um miðja næstu viku.
„Þetta er um margt óvenjulegt verkefni hvað varðar hönnunar- og verkfræðiþáttinn og margir sem þurfa að koma að því ferli, bæði fagfólk á okkar vegum og svo sérfræðingar og embættismenn til úrvinnslu og samþykktar af hálfu stofnana sveitarfélagsins.
Við höfum líka bætt aðeins í, gert nokkrar breytingar á hönnun í vetur sem miða að því að styrkja miðbæinn og gera hann enn meira aðlaðandi. Meðal annars lækkað niður um eina hæð hluta aðaltorgsins til að skapa þar aukið skjól og aðgang að veitingastöðum, og fært til hús og skipt milli fyrri og seinni áfanga og fleira.
Þessi undirbúningur hefur í heild tekið ívið lengri tíma en við ætluðum, en þeim tíma var vel varið,“ segir Guðjón Arngrímsson.
Eins og fram hefur komið er stefnt að því að reisa 33 byggingar í nýja miðbænum. Þær verða í gömlum stíl og eiga þær þrettán fyrstu að vera tilbúnar vorið 2020. Tveggja hektara svæði í hjarta bæjarins hefur verið helgað þessum framkvæmdum og þar verða verslanir, veitingastaðir, íbúðir, hótel og fleira. Í haust var haldin íbúakosning meðal Árborgarbúa um áform Sigtúns þróunarfélags um miðbæ og voru hugmyndirnar samþykktar með um 60% atkvæða.