Þrír fyrrverandi starfsmenn Félagsbústaða, sem rætt er við í Morgunblaðinu í dag, segja erfið samskipti við Auðun Frey Ingvarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Félagsbústaða, hafa átt þátt í að þeir hættu störfum hjá fyrirtækinu. Þeir hafi kvartað undan framkomunni en fengið lítil viðbrögð hjá stjórn og stéttarfélögum.
Sæmundur Ásgeirsson starfaði hjá Félagsbústöðum í tæpa tvo áratugi. Hann telur að framkoma Auðuns Freys kunni að flokkast undir einelti. Fyrirtækið hafi haft vitneskju um andleg veikindi sín en ekkert gert.
Sveinn Gunnarsson starfaði hjá Félagsbústöðum í um hálfan annan áratug. Hann segir Auðun Frey hafa stöðugt gert lítið úr störfum sínum. Hann hafi leitað til geðlæknis sem hafi talið framkomuna einelti.
Þriðji starfsmaðurinn, sem óskar nafnleyndar, kallaði eftir eineltisrannsókn hjá stjórn Félagsbústaða. Stjórnin hafi hins vegar vísað honum á stéttarfélag.
Auðun Freyr baðst undan viðtali vegna málsins en heimilaði að birt yrði grein hans í Morgunblaðinu í dag vegna fyrri fréttar blaðsins um málið. Þar fjallar hann m.a. um óánægju hjá hluta starfsmanna.