„Þetta var alveg dásamlega fallegt,“ segir Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta-samtakanna, um göngu samtakanna „Úr myrkrinu í ljósið“ sem fór fram í fjórða skipti í nótt. Gangan er farin í minningu þeirra sem látist hafa í sjálfsvígi og til að efla von þeirra sem eiga um sárt að binda vegna vanlíðanar, sjálfsvígshugsana og sjálfsskaða.
Gangan hófst klukkan þrjú í nótt við húsnæði KFUM og KFUK við Holtaveg í Laugardag og merktu sjálfboðaliðar Holtaveginn niður að Laugardalnum með kertaluktum sem vísuðu þátttakendum veginn. „Þetta var eins og að koma inn í ævintýraland,“ segir Kristín.
Jói P. og Króli settu tóninn fyrir gönguna, alls fimm kílómetra leið og áætlar Kristín að um 300 manns hafi tekið þátt. Gangan er hluti af alþjóðlegri göngu sem haldin er um svipað leyti. Gangan fór fram á fjórum stöðum hér á landi, Reykjavík, Akureyri, Ísafirði og Seyðisfirði sem og í fjölmörgum löndum og er reiknað með að yfir 400.000 manns hafi gengið úr myrkri inn í birtu á sama tíma um heim allan.
Við endamark göngunnar í Laugardalnum tók Þráinn Árni Baldvinsson, gítarleikari og söngvari í Skálmöld, á móti göngufólki með gítarspili.
Kristín tók við starfi framkvæmdastjóra samtakanna um áramótin og er þetta í fyrsta skipti sem hún tekur þátt í göngunni. „Þetta var ofsalega fallegt. Ég vissi ekkert hvað ég var að fara út í en þetta kom mér dásamlega á óvart.“
Frá því að Kristín tók við starfinu segist hún að það hafi komið henni mest á óvart hvað málefni snertir alla. „Þetta snertir alla. Það eru allir með sögu sem tengist sjálfsvígum óþægilega nálægt sér. Að sjá það svart á hvítu hefur slegið mig mest.“
Píeta samtökin voru stofnuð á Íslandi árið 2016 en halda upp á árs starfsafmæli nú í ár. Þörfin á Píeta samtökunum hefur sannað sig á þessu ári en sem dæmi má nefna að 19 meðferðarviðtöl voru veitt í apríl í fyrra en 158 í apríl á þessu ári.
Helgi Viðar Hilmarsson var meðal þeirra sem tóku þátt í göngunni og tók hann myndirnar sem sjá má hér að neðan.