„Það þarf að gera allsherjar öryggisúttekt á skólanum. Sérstaklega ef það kæmi í ljós að kviknað hefði verið í út frá rafmagni. Mér finnst að þetta eigi að hringja öllum bjöllum,“ segir Ragnheiður H. Magnúsdóttir foreldri barns í Seljaskóla.
„Ég pæli mikið í öryggismálum í minni vinnu. Ég er enginn sérfræðingur en er verkfræðingur og sinni daglega öryggismálum,“ segir Ragnheiður sem er forstöðumaður framkvæmda hjá Veitum.
Í öryggisúttektinni væri mikilvægt að fara t.d. yfir rýmingaráætlanir, hvernig sé staðið að því að undirbúa börn og starfsfólk fyrir rýmingu, fara yfir flóttaleiðir, hvort það séu nægilega mikið af eldvarnarhurðum, athuga hugsanlega leka í þaki og kringum glugga, hvort leyfilegt sé út frá rýmingarsjónarmiðum að hafa kennsluna að hluta til á göngum skólans
Hún telur brunann líta mögulega út eins og rafmagnsbilun. „Kannski er þakið lekt. Í mínum huga er þetta alveg pottþétt viðhaldsmál,“ segir hún.
Hún segir að ef í ljós kæmi að kviknað hefði í einnig í þetta skipti út frá rafmagni þá yrði það annar eldsvoðinn með tveggja mánaða millibili af sömu ástæðu. „Þá er ljóst að skólinn er í lamasessi,“ segir hún.
„Þetta er komið virkilega á þann stað að það er ekki hægt að sinna viðhaldi. Það þarf að setja alvöru pening í viðhald. Þetta er komið svo langt út fyrir öll velsæmismörk,“ segir Ragnheiður.
Í þessu samhengi bendir hún á að skólastjórnendur hafi reynt að kalla eftir fjármagni til að sinna viðhaldi en ekkert gerist. „Þetta situr ekki bara á hans [skólastjórans] borði. Þetta þarf að fara ofar í keðjunni, til borgarinnar,“ segir Ragnheiður.
Ef íkveikja er um að ræða þá vakna aðrar spurningar sem ekki síst er brýnt að ráða bót á. Hún vill þá efla eftirlit með skólanum eins og að setja upp eftirlitsmyndavélar og efla foreldrarölt.
Eins og fram hefur komið í umfjöllun um eldsvoðann segir Magnús Þór Jónsson, skólastjóri Seljaskóla, að allt verði gert til að tryggja öryggi barna og starfsmanna í skólanum.