„Mamma var við nám í framhaldsskólanum á Akranesi og þau pabbi voru til skamms tíma par. Hann var hins vegar farinn að spila erlendis þegar ég fæddist og þau hætt saman. Mamma sá hins vegar alltaf til þess að hann fylgdist með mér, sendi honum myndir og annað slíkt, en að öðru leyti hafði ég ekkert af honum að segja fyrstu árin.“
Þetta segir Kristófer Acox körfuboltamaður í KR og landsliðinu en hann er sonur Ednu Maríu Jacobsen og Bandaríkjamannsins Terrys Acox sem lék körfubolta hér á landi um tíma með ÍA.
Kristófer er einkabarn móður sinnar og hvíldi uppeldið á henni og ömmu hans. „Samband okkar mömmu er ofboðslega náið og sama máli gegnir um ömmu sem bjó um tíma hjá okkur. Þær bera alla ábyrgð á uppeldi mínu. Ég hafði það mjög gott í æsku og er þeim óendanlega þakklátur.“
– Þannig að konur hafa haft mikil áhrif á þig?
„Já, það er óhætt að segja það. Og það til góðs. Þegar ég var að byrja í fótboltanum hafði ég meira að segja kvenkyns þjálfara um tíma. Þannig að ég er mótaður heilmikið af konum.“
– Skorti þig aldrei föðurímynd?
„Nei, ég get ekki sagt það. Ég man alla vega ekki eftir að hafa pælt sérstaklega í því fyrstu árin og svo kom pabbi auðvitað inn í líf mitt þegar ég var unglingur. Mér leið vel og fannst ekkert vanta.“
Kristófer var á fimmtánda ári þegar hann hitti föður sinn fyrst. Hann fór þá í körfuboltabúðir í Boston í Bandaríkjunum ásamt Matthíasi Orra Sigurðarsyni vini sínum og hélt að því loknu til Norður-Karólínu, þar sem fjölskylda Matthíasar ætlaði að dveljast í fríi „Pabbi býr í Suður-Karólínu og ákveðið var að hann kæmi að sækja mig. Hann mætti með alla familíuna og þau tóku á móti mér með blöðrum og látum. Ógleymanleg stund.“
Terry á fjórar dætur, tvær með núverandi eiginkonu sinni og tvær af fyrri samböndum; allar nema ein eru þær yngri en Kristófer. „Ég er ekki í miklu sambandi við systur mínar en hitti þær þegar ég er í Bandaríkjunum.“
Feðgarnir náðu strax vel saman og árið 2010 fór Kristófer utan og bjó í heilan vetur hjá föður sínum og stundaði nám í „high school“. Það var athyglisverð reynsla. „Amma hafði svolitlar áhyggjur af þessu en mamma var rólegri; var mjög spennt fyrir því að ég fengi tækifæri til að kynnast pabba almennilega. Þetta byrjaði svo sem ágætlega en fljótlega kom babb í bátinn. Við erum svipaðar týpur, feðgarnir, báðir þrjóskir og þetta varð eiginlega bara stál í stál. Pabbi hafði aðrar hugmyndir um uppeldi en mamma og amma og mér gekk illa að laga mig að því sem hann vildi. Ekki bætti úr skák að ég var þarna á erfiðum aldri, sautján ára. Ég kláraði veturinn úti en eftir það fór ég aftur heim til Íslands. Pabbi var ósáttur við það, vildi hafa mig áfram hjá sér, og í einhverja mánuði var lítið samband okkar á milli. Við tókum þó fljótlega upp þráðinn aftur og eigum í mjög góðu sambandi í dag. Ætli við höfum ekki báðir haft gott af þessu. Þessi dvöl gerði alla vega helling fyrir mig; ég hefði ekki viljað hafa sleppt þessu.“
Heima á Íslandi kláraði Kristófer Kvennaskólann og steig sín fyrstu skref með meistaraflokki KR. Spurður hvort hann hafi verið borinn saman við föður sinn á velli svarar Kristófer: „Margir vissu hver pabbi er og hvað hann var þekktur fyrir. Til að byrja með fannst mér ég stundum tekinn inn á þeim forsendum að ég væri sonur hans en það breyttist eftir því sem mér fór fram. Pabbi var svakalegur íþróttamaður og ég er með öll íþróttagenin og stökkkraftinn frá honum. Ég sá hann auðvitað aldrei spila en hef séð myndbönd og heyrt sögur og það er margt líkt með okkur; hvað líkamstjáningu varðar er ég til dæmis eins og spegilmynd af pabba.“
– Eruð þið jafnháir?
„Pabbi er aðeins hærri en ég. Annars er hann orðinn fimmtugur, karlinn, og byrjaður að vaxa í vitlausa átt. Ég er mjög duglegur að minna hann á það.“
Hann hlær.
Að stúdentsprófi loknu hélt Kristófer aftur vestur um haf í nám við Furman-háskóla í Suður-Karólínu, þar sem hann lék körfubolta og lagði stund á nám í heilsuvísindum. „Þetta var mjög skemmtilegur tími og ekki spillti fyrir að skólinn var ekki nema í klukkutíma fjarlægð frá pabba og fjölskyldu hans. Við hittumst því oft og hann mætti á alla heimaleiki hjá mér. Það var mjög góð tilfinning að hafa hann á pöllunum.“
– Hefurðu alltaf litið öðrum þræði á þig sem Bandaríkjamann?
„Ég hef alltaf verið meðvitaður um það að ég er hálfur Bandaríkjamaður og átt auðvelt með að laga mig að samfélaginu þar. Mér finnst ég vera heima bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum. Það hjálpaði mér mikið meðan ég var í háskólanáminu. Þess utan hef ég mjög gaman af því að kynnast nýju fólki og ólíkum menningarheimum.“
Nánar er rætt við Kristófer í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.