Sex slökkviliðsmenn frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins eru enn að störfum á vettvangi brunans sem upp kom í Seljaskóla á fyrsta tímanun í nótt og gera má ráð fyrir að slökkvistörfum ljúki ekki fyrr en seinni part dags.
„Þetta gengur þokkalega, við erum enn á vettvangi að klára það sem útaf stendur. Þakið á húsinu féll og því liggja járnplötur yfir öllu sem við þurfum að fjarlægja. Það er kranabíll á staðnum sem lyftir þeim upp og við slökkvum í glæðum ef þær leynast undir. Þetta er meira hreinsunarstarf en annað,“ segir Rúnar Helgason, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.
Vaktaskipti urðu klukkan 7:30 í morgun en fram að því var allt tiltækt slökkvilið á vettvangi. Ekki er útlit fyrir að slökkvistörfum verði lokið í hádeginu eins og vonast var til.
„Mér er nú til efs að við verðum búnir að þessu um hádegi, það væri mjög vel gert ef það næðist. Það er hreinsun líka, vatn og annað sem þarf að græja. Ég gæti trúað því að þetta myndi teygjast fram á miðjan dag.“