Lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar hefur krafist miskabóta upp á rúman milljarð króna vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins.
Ragnar Aðalsteinsson lögmaður greindi frá þessu í Silfrinu á RÚV í morgun en Guðjón var sýknaður í Hæstarétti í fyrra, 38 árum eftir sakfellingu hans í málinu.
Í síðustu viku sagði Ragnar að hinir sýknuðu hefðu ekki fengið formleg boð um bótagreiðslur, auk þess sem að þær bótafjárhæðir sem stæðu til boða væru of lágar miðað við fordæmi í málinu.
Í Silfrinu í morgun sagði Ragnar meðferðina sem sakborningar í málinu sættu fordæmalausa á vestræna vísu, bæði hvað varðaði handtöku og harðræði. Þá hafi nánast allar reglur um verndun sakborninga verið brotnar, ekki einungis af lögregluvaldinu heldur einnig af dómstólum.