Mikið lagt upp úr skimun á 20. viku

Samkvæmt lögunum eins og þau eru í dag er leyfilegt …
Samkvæmt lögunum eins og þau eru í dag er leyfilegt að bregðast við ef eitthvað kemur upp við skimun á 20. viku meðgöngu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Prófessor í guðfræðilegri siðfræði við Háskóla Íslands segir það á gráu svæði og stangast á við sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að svo mikil áhersla sé lögð á mikilvægi skimunar á 20. viku meðgöngu, sem getur sagt til um heilbrigði fóstursins, í umsögnum heilbrigðisstéttarinnar um nýtt frumvarp um þungunarrof.

Sólveig Anna Bóasdóttir var meðal gesta í þættinum Þingvöllum á K100 í morgun þar sem frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra var til umræðu. 

Ásamt Sólveigu Önnu voru þær Herdís Þorgeirsdóttir mannréttindalögfræðingur og Sigurlaug Benediktsdóttir, fæðingar- og kvensjúkdómalæknir, gestir Páls í þættinum.

Herdís ásamt Sólveigu Önnu.
Herdís ásamt Sólveigu Önnu. Skjáskot/K100

Herdís sagðist varfær í afstöðu sinni til þessara mála, enda væri mikið álitamál hvenær rétturinn til lífs hæfist. 

Sigurlaug benti á að samkvæmt lögunum eins og þau eru í dag sé einnig leyfilegt að bregðast við ef eitthvað kemur upp við skimun á 20. viku meðgöngu. Þá fái foreldrar tækifæri til að taka ákvörðun að vel ígrunduðu máli fram að 22. viku. „Það helst óbreytt og það er ekki verið að hrófla við þessu. Breytingin núna snýr að þeim sem ekki eru með gölluð fóstur, en koma eftir 16. viku meðgöngu.“

Breytingin snúi að viðkvæmum hópi kvenna

Sigurlaug starfaði áður sem læknir í Svíþjóð, en þar eru þungunarrof af félagslegum ástæðum leyfð fram að 18. viku meðgöngu, en af læknisfræðilegum ástæðum fram að 22. viku. Aðspurð sagðist Sigurlaug hugsi yfir því að félagslegar og læknisfræðilegar aðstæður séu aðgreindar, enda sé það oftar en ekki félagsleg ákvörðun foreldra hvort halda eigi áfram meðgöngu sé barnið fatlað en samt lífvænlegt.

„Þetta eru þrjú til fimm tilfelli á ári þar sem konum er meinað að rjúfa meðgöngu, en myndu með nýju lögunum fá að rjúfa meðgöngu,“ sagði Sigurlaug. Um væri að ræða mjög viðkvæman hóp kvenna sem hefði yfirleitt ekki áttað sig á þungun vegna félagslegra aðstæðna, ýmist vegna geðraskana, neyslu eða ungs aldurs.

Sigurlaug og Páll.
Sigurlaug og Páll. Skjáskot/K100

Með nýju lögunum yrði þessum konum ekki neitað um þungunarrof, konum sem hefðu komist að þeirri niðurstöðu að þær gætu ekki séð fyrir barni vegna félagslegra aðstæðna. „Þetta er eina breytingin á framkvæmd í þessu nýja frumvarpi.“

Talsverður hiti hefur verið í umræðunni um nýja frumvarpið, bæði innan og utan veggja Alþingis, og varð ekki breyting þar á í Þingvöllum í dag, en hlýða má á þáttinn í heild sinni hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert