Eldur kom upp í þaki í Seljaskóla í Breiðholti skömmu eftir miðnætti í nótt og hefur allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu sinnt slökkvistarfi óslitið síðan þá.
Jón Helgason, fyrrverandi nemandi við skólann, tók þessar drónamyndir og -myndskeið sem sjá má hér að ofan í morgun sem sýna vel aðstæður á vettvangi.
Eldurinn kom upp í þaki einnar af níu byggingum skólans. Þak byggingarinnar féll saman á fimmta tímanum í morgun og um svipað leyti tókst að slökkva mestan eldinn. Slökkviliðsmenn vinna nú að því að ná stórum járnplötum af þaki hússins til að slökkva í glæðum.
Sex slökkviliðsmenn frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins eru enn að störfum á vettvangi brunans og búist er við að hreinsunarstarf haldi áfram fram á miðjan dag þar til vettvangurinn verður afhendur lögreglu. Ekkert hefur verið gefið upp um möguleg eldsupptök.
Magnús Þór Jónsson, skólastjóri Seljaskóla, sagði í samtali við blaðamann mbl.is fyrir utan skólann í nótt að ljóst mál sé að tjón af völdum eldsins sé mikið. Ekki er um að ræða sömu álmu og eldurinn kom upp í mars, en húsin séu spegilmynd hvors annars. Magnús á von á einhverri röskun á skólastarfi vegna eldsins en segir að kennt verði á mánudaginn.