Siðanefnd Alþingis telur tormerki á því að hún taki mál Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, til umfjöllunar. Siðanefndin telur sér ekki fært að leggja mat á álitaefni málsins.
Þetta kemur fram í áliti nefndarinnar sem hefur verið birt á vef Alþingis.
Siðanefnd Samfylkingarinnar áminnti Ágúst Ólaf í haust fyrir að áreita konu kynferðislega.
Forsætisnefnd hafði óskað eftir því að siðanefnd Alþingis veitti álit á því hvort hátterni þingmannsins „falli undir opinbera framgöngu hans sem þjóðkjörins fulltrúa og hvort líta megi svo á að hún hafi tengst málum sem hafi verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni“.
Forsætisnefnd telur ekki heldur tilefni til frekari athugunar á málinu af hennar hálfu. „Þegar litið er til niðurstöðu siðanefndar og þess áfellisdóms sem opinberlega liggur fyrir í niðurstöðu trúnaðarnefndarinnar, er það hins vegar niðurstaða forsætisnefndar, að undangengnu heildstæðu mati, að fyrirliggjandi erindi gefi ekki tilefni til frekari athugunar af hennar hálfu,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar.