Segja ráðuneytið ekki hafa brugðist við kvörtunum

Félag íslenskra leikara og sviðslistafólks fullyrðir að ekki hafi verið …
Félag íslenskra leikara og sviðslistafólks fullyrðir að ekki hafi verið brugðist við kvörtunum sem borist hafa Þjóðleikhúsráði og mennta- og menningarmálaráðuneytinu vegna samskipta leikhússtjóra við félagsmenn FÍL. mbl.is/Árni Sæberg

Stjórn Félags íslenskra leikara og sviðslistafólks (FÍL) ætlar að óska eftir aðstoð mennta- og menningarmálaráðuneytisins vegna vegna athugasemda sem borist hafa vegna hegðunar Ara Matthíassonar, þjóðleikhússtjóra.

Félagið fullyrðir að ekki hafi verið brugðist við kvörtunum sem borist hafa Þjóðleikhúsráði og ráðuneytinu vegna samskipta leikhússtjóra við félagsmenn FÍL. Þetta er meðal þess sem fram kom á fundi félagsins fyrir helgi.

Í umfjöllun Fréttablaðsins um málið í morgun segir að kvartanirnar séu misalvarlegar en snúist meðal annars um samningsbrot, hegðun og erfið samskipti og spanni nokkurra ára tímabil.

Skrifstofustjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu gat ekki staðfest við blaðamann mbl.is hvort ráðuneytinu hafa borist kvartanir vegna þjóðleikhússtjóra en bað blaðamann um að óska eftir gögnum sem gerð verða opinber á næstu dögum.

Ari sagði í samtali við RÚV í hádeginu að umræddar kvartanir hafi ekki borist inn á sitt borð.

Á fundi FÍL var einnig ákveðið að krefjast þess að Þjóðleikhúsráð fái utanaðkomandi sérfræðing í vinnuvernd og mannauðsmálum til að fara ofan í kjölinn á samskiptum þjóðleikhússtjóra við nokkra listamenn sem starfað hafa undir honum.

Ari hefur gegnt stöðu þjóðleikhússtjóra frá 2015. Mennta- og menningarmálaráðherra skipar þjóðleikhússtjóra til fimm ára í senn að fenginni umsögn þjóðleikhúsráðs í samræmi við leiklistarlög og lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ráðið er í starfið frá 1. janúar 2020. Ari vildi ekki gefa það upp um helgina hvort hann ætli að sækja um stöðuna á ný. „Við sjáum bara til,“ sagði Ari í samtali við fréttastofu RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert