Lokaatkvæðagreiðsla um stjórnarfrumvarp um þungunarrof, sem heimilar slíkar aðgerðir fram til 22. viku meðgöngu, er á dagskrá Alþingis í dag en atkvæðagreiðslunni var frestað í síðustu viku.
Eins verða greidd atkvæði um tvær breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram við frumvarpið, eina sem kveður á um að mörkin liggi í 20 vikum og aðra um að mörkin liggi í 18 vikum.
Meirihluti velferðarnefndar þingsins hefur lagt til að frumvarpið verði samþykkt. Í umræðuþættinum Þingvöllum á K100 í gær hvatti Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, þingmenn til þess að sýna varúð og taka sér meiri tíma til að gaumgæfa málið, líkt og Siðfræðistofnun HÍ hefði þegar lagt til í sinni umsögn. „Það er alls engin samfélagsumræða búin að fara fram um þetta, að mínum dómi,“ sagði hún.