Tvítyngi ekkert einfalt mál

Dr. Elín Þöll Þórðardóttir flutti erindi á vorráðstefnu Greiningar- og …
Dr. Elín Þöll Þórðardóttir flutti erindi á vorráðstefnu Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar á föstudag. Þar fjallaði hún um tvítyngi og mikilvægi þjálfunar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tvítyngi er ekki eitthvað sem gerist sjálfkrafa því til þess að málþroski barna sé eðlilegur þurfa þau mikla örvun í tungumálinu annars er hætta á að þau hafi ekki sömu tök á hvoru máli um sig og eintyngd börn. Sleppið þriðja tungumálinu hjá ungum börnum, segir Elín Þöll Þórðardóttir, prófessor í talmeinafræði við McGill-háskólann í Montreal í Kanada. Þar vísar hún til þess að enska sé notuð í samskiptum við börn í dag sem búsett eru á Íslandi en koma frá heimilum þar sem annað tungumál en enska eða íslenska er talað. 

Að öðrum kosti er hætta á málþroskaröskun en í henni felst að viðkomandi er ekki með þann málþroska sem þykir eðlilegur miðað við aldur. Elín Þöll segir að það þýði ekki að viðkomandi barn beygi vitlaust heldur talar viðkomandi einfaldara mál þar sem orðaforðann vantar. 

Málþroskaröskun er falinn vandi sem fær tiltölulega litla athygli þrátt fyrir að um 10% barna séu með slíka röskun og í raun miklu algengari en einhverfa þó svo færri viti hvað felist í slíkri röskun en einhverfu.

Börn með málþroskaröskun þurfa meiri stuðning og snemmtæk íhlutun mikilvæg á sama tíma og mikilvægt sé að íhlutun haldi áfram. Erfiðara getur reynst að greina slíka röskun hjá tvítyngdum börnum þar sem tvítyngd börn sýna yfirleitt ekki yfirburði í neinu tungumáli ólíkt því sem eintyngd börn gera með sitt fyrsta tungumál.

Til að eiga möguleika á að tileinka sér tungumálið þurfa tvítyngd börn að vera 50% af vökutíma sínum í íslensku málumhverfi. Því þjálfun skiptir hér höfuðmáli eins og í svo mörgu. Ef börn fá ekki næga þjálfun ná þau ekki þeim tökum á tungumálinu sem er nauðsynlegt í framhaldsnámi. 

Elín Þöll segir að hún hafi áhyggjur af þeim mun sem er á milli barna á Íslandi og rannsóknir sýni að tvítyngd börn á Íslandi standa eintyngdum börnum að baki í skólakerfinu. Þau auka til að mynda orðaforða og lesskilning lítið á milli ára í grunnskólanum.

Þessu sé öðruvísi farið í Quebec í Kanada þar sem Elín Þöll býr. Franska er fyrsta tungumálið þar og og gríðarleg áhersla lögð á að öll börn læri frönsku vel. Þar er skóladagurinn mun lengri en hér á Íslandi og tvítyngd börn því mun lengur í frönsku málumhverfi en ef þau væru nemendur í grunnskóla á Íslandi. 

Þetta skilar sér í því að ekki er þessi mikli munur á milli ein- og tvítyngdra nemenda þar og er í íslenska skólakerfinu.

Hefur kosti og galla

Elín Þöll var meðal fyrirlesara á vorráðstefnu Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar á föstudag þar sem fjallað var um stöðu tvítyngdra barna og snemmtæka íhlutun.

Að sögn Elínar hefur margt breyst á þeim 30 árum sem hún hefur rannsakað málþroska en hún er með doktorspróf í talmeinafræði. Þá var umræðan í garð tvítyngdra mjög neikvæð en í dag sé hún mjög jákvæð. Var hér áður jafnvel talið að tvítyngi hefði slæm áhrif á greind og velgengni fólks í lífinu. Nú sé aftur á móti hamrað á jákvæðu hliðunum og af svo miklum þunga að það sé bannað að nefna neikvæðar hliðar. 

Hún segir að tvítyngi hafi marga kosti og sá augljósasti sé að geta átt samskipti á fleiri tungumálum en einu. 

Börn með og án þroskafrávika geta orðið tvítyngd ef aðstæður eru góðar en hætta geti verið á ferðum ef aðstæður eru ekki góðar.

Elín ítrekar að tvítyngd börn hafa ekki sömu tök á hvoru máli um sig og eintyngd börn og hætta sé á að þeim gangi ekki jafn vel ef munurinn er mikill. Ekki megi gleyma því að tvítyngi er ekki eitthvað sem gerist sjálfkrafa og til þess að vel takist til þurfa börn rétt tækifæri og ástundun. Til að mynda í leikskóla. Að talað sé við þau á tungumálinu, ekki þriðja tungumálinu s.s. ensku. Börn eru ekki svampar heldur þurfa þau örvun og þjálfun. Ef vel er haldið á málum skilar það góðum árangri sem skilar sér í gegnum alla skólagöngu barna. Á sama tíma er sorglegt að sjá börn ljúka grunnskóla án þess að kunna nokkuð tungumál vel. 

Sérstök áhersla á ráðstefnunni var lögð á sérstöðu barna sem eru tvítyngd eða hafa íslensku sem annað tungumál en sá notendahópur innan Greiningar- og ráðgjafarstöðvar hefur stækkað mikið á seinustu árum. 

„Snemmtæk íhlutun er lykilatriði í þjónustu við ung börn með raskanir í taugaþroska. Börn mótast af umhverfi sínu og rannsóknir seinustu áratugina sýna að hægt er að hafa óbein áhrif á starfsemi taugakerfisins með örvun frá umhverfinu. Tímabilið frá fæðingu og fram til sex ára aldurs er sérlega mikilvægt í þessu sambandi og við það er snemmtæk íhlutun yfirleitt kennd. 

Snemmtæk íhlutun felur í sér markvissa og samræmda þjónustu. Teymisvinna og samvinna við foreldra er lykilatriði og mikilvægt er að foreldrar séu hafðir með í allri ákvarðanatöku. Stuðningur við fjölskyldur barnanna er einn af þeim hornsteinum sem þjónustan hvílir á. Þessi stuðningur er margháttaður og felst til dæmis í því að veita foreldrum ráðgjöf við að örva þroska barna sinna og takast á við nýtt hlutverk. Íhlutunin byggir á viðurkenndu verklagi og gagnreyndum kennsluaðferðum og sett eru viðmið um kunnáttu og færni starfsfólks sem veitir þjónustuna. Markmiðið er að hafa jákvæð áhrif á þroskaframvindu barnsins og þar með framtíðarhorfur þess.

Greiningar- og ráðgjafarstöð hefur frá upphafi lagt áherslu á að kenna snemmtækar íhlutunarleiðir fyrir börn með þroskafrávik, t.d. þroskahömlun og einhverfu en sambærilegar aðferðir gagnast einnig börnum í áhættuhópum, til dæmis fyrirburum og börnum sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður.

Síðastliðið haust var hugtakið fest í sessi í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Hugtakið er einnig notað í víðari merkingu yfir aðgerðir og kennslu sem miðar að því að koma í veg fyrir óæskilega þróun einkenna, t.d. hegðunar- eða námsvanda hjá börnum á leik- og grunnskólaaldri sem ekki eru með skilgreinda fötlun,“ segir í tilkynningu frá Greiningar- og ráðgjafarstöðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert