„Hvenær má búast við aðgerðum?“

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um stuðning við foreldra barna með klofinn góm. Umræða um málið hefur verið mikil eftir frétt Morgunblaðsins í síðasta mánuði.

Þar var fjallað um mál níu ára gamals drengs sem er búsettur í Vestmannaeyjum og fæddist með skarð í gómi, en Sjúkratryggingar Íslands synjuðu beiðni um greiðsluþátttöku í læknismeðferð drengsins. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hafði samband við móður drengsins í kjölfarið og sagði ástæðu synjunarinnar vera stofnanatregðu sem ætti ekki að líðast.

Ásmundur spyr nú hvort ráðherra hyggist bæta stöðu þeirra barna sem fæðast með klofinn góm en falla utan greiðsluþátttöku sjúkratrygginga þegar kemur að tannréttingakostnaði og fá þannig ekki endurgreiðslu samþykkta hjá Sjúkratryggingum Íslands.

„Hvenær má búast við aðgerðum af hálfu ráðherra í þágu þessara barna og foreldra þeirra?“ segir í fyrirspurninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert