Magnús Þór Jónsson, skólastjóri Seljaskóla, segir að skólahald fyrsta skóladaginn eftir brunann hafi gengið vel eftir atvikum. „Stóra verkefnið“ hafi verið að ræða við krakkana um hvað átti sér stað og að fræða þá um málsatvik.
Sagt var frá því í morgun að einhverjir foreldrar hefðu tjáð áhyggjur sínar af stöðu mála í brunavörnum í skólanum. Magnús segist hafa verið í sambandi við hluta þess fólks og að hann hafi reynt að skýra fyrir þeim ástandið. Langstærstur hluti nemenda mætti.
„Við erum að horfa til þess að hafa fund með foreldrum þegar málin hafa skýrst til framtíðar,“ segir Magnús. Dagurinn í dag hafi tekið á skipulagslega og að ekki hafi verið komist svo langt að halda fundi. Skólinn haldi foreldrunum þó upplýstum með daglegum skeytum, enda snúist eins umfangsmikið verk og þetta á endanum um að taka einn dag í einu, að sögn Magnúsar.
Fjöldi nemenda gat ekki verið í sínum venjulegu skólastofum í dag og olli það ruglingi að einhverju marki. Þó hafi dagurinn í grófum dráttum gengið vel. Húsnæðið sem nemendurnir fara í er þeim ekki framandi, enda eru þar félagsmiðstöðvar þeirra og kirkja.
Magnús segir að í vikunni haldi skólahaldið áfram með þessum hætti. Smám saman komist festa á skipulagið. Þetta bráðabirgðaástand muni ríkja út skólaárið, þar sem ekki verður unnt að kenna í stofunum þar sem brann.