Óvissa ríkir um þátttöku Seltjarnarnesbæjar í fyrirhugaðri borgarlínu sem er samstarfsverkefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavíkurborg hefur þegar samþykkt fjárútlát til verkefnisins og búist er við því að Garðabær, Hafnarfjörður og Kópavogur geri það innan skamms, en það veltur þó á jákvæðri afstöðu ríkisins til þátttöku.
Málið verður tekið fyrir í bæjarráði Seltjarnarness 23. maí. Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri býst við því að skoðanir verði skiptar um þátttöku í verkefninu. Í bókun meirihlutans á síðasta ári kom fram að hann vildi leggja megináherslu á frekari eflingu Strætó og taldi hugmyndir um borgarlínu hæpnar, ekki síst forsendur um heildarkostnað, áætlaða nýtingu og rekstrarkostnað.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Ásgerður að ekki sé gert ráð fyrir neinum fjárveitingum til borgarlínu í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2019 og borgarlínu sé heldur ekki getið í þriggja ára áætlun bæjarins 2020 til 2022. Hún segir að forsendur verkefnisins séu að ríkið komi að verulegum hluta að framkvæmdinni.